Innlent

Mikil aukning á greiðslum úr ábyrgðasjóði launa

Höskuldur Kári Schram skrifar
Hundrað fleiri fengu greitt úr ábyrgðasjóði launa á fyrstu níu mánuðum þessa árs en allt árið í fyrra. Umsóknum hefur fjölgað um rúmlega 35 prósent á milli ára.

Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun fengu 369 greitt úr sjóðnum á fyrstu níu mánuðum þessa árs en voru 270 allt árið í fyrra og 243 árið 2016.

Þetta er rúmlega 35 prósenta aukning milli ára og helmings fjölgun miðað við árið þar á undan.

Unnur Sverrisdóttir aðstoðarforstjóri Vinnumálastofnunar segir þetta mögulega benda til þess að hagkerfið sé að kólna.

„Ég veit ekki hvort það sé ástæða til að hafa miklar áhyggjur [af þessari þróun] strax en það er ástæða til að fylgjast grannt með þessari þróun,“ segir Unnur.

Hámarksgreiðslur úr ábyrgðasjóði voru hækkaðar úr 385 þúsund krónum í 633 þúsund í sumar en breytingin er þó ekki afturvirk. Þá var hámarksábyrgð vegna orlofs hækkuð úr 617 þúsund í rúma milljón.

Unnur segir að það taki oft nokkra mánuði að afgreiða umsóknir og ekki allir fái tjón sitt bætt að fullu.

„Það er misjafnt eftir launum sem fólk hefur haft. Það fær ekkert umfram 633 þúsund þannig að það fá ekki allir sitt tjón bætt en vonandi eitthvað,“ segir Unnur. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×