Erlent

Trump hæddist að vitnisburði Blasey Ford

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Trump á fundinum í Mississippi í gær.
Trump á fundinum í Mississippi í gær. vísir/epa
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hæddist að vitnisburði Christine Blasey Ford fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á fundi með stuðningsmönnum sínum í Mississippi í gær.

Blasey Ford kom fyrir dómsmálanefndina í síðustu viku og bar þar vitni vegna ásakana sem hún hefur sett fram á hendur Brett Kavanaugh, sem Trump hefur tilnefnt í Hæstarétt Bandaríkjanna. Blasey Ford segir Kavanaugh hafa beitt sig kynferðisofbeldi þegar þau voru unglingar og að hann hafi reynt að nauðga henni.

Á fundinum í Mississippi hæddist Trump að vitnisburði Blasey Ford þegar hann sagði að svo virtist vera sem hún gæti ekki munað ákveðin smáatriði í tengslum við meint kynferðisofbeldi Kavanaugh.

Trump sagði að andstæðingar hans hefðu verið að reyna að eyðileggja Kavanaugh alveg frá því að forsetinn tilnefndi hann í æðsta dómstól Bandaríkjanna. Áhorfendur hlógu þegar Trump hélt svo áfram:

„Þetta gerðist fyrir 36 árum: Ég drakk einn bjór! Heldurðu að það gæti verið...? Nei! Það var einn bjór. Allt í lagi, gott. Hvernig komstu þér heim? Ég man það ekki. Hvernig komstu þér á staðinn þar sem þetta gerðist? Ég man það ekki. Hvar gerðist þetta? Ég man það ekki. Fyrir hversu löngu síðan var þetta? Ég man það ekki. Ég man það ekki. Ég man það ekki! Ég man það ekki! En ég fékk mér einn bjór. Það er það eina sem ég man. Og líf eins manns er nú í rúst.“

Þessi málflutningur Trump nú er í ósamræmi við það sem hann sagði fyrst eftir að Blasey Ford kom fyrir dómsmálanefndina. Þá sagði forsetinn að vitnisburður hennar hefði verið mjög sannfærandi og lýsti henni sem ágætri konu.

Fyrr í gær ítrekaði Trump stuðning sinn við Kavanaugh í embætti hæstaréttardómara og sagði að hann tryði því að öldungardeildin myndi samþykkja tilnefninguna. Hann sagði við blaðamenn að það væri „mjög ógnvekjandi fyrir unga menn í Bandaríkjunum þegar þú getur verið sekur um eitthvað sem þú ert mögulega ekki sekur um.“


Tengdar fréttir

Vilja að Kavanaugh berjist af krafti

Vitnisburður Kavanaugh féll í kramið hjá Repúblikönum og Donald Trump en hefur þó leitt til þess að spurningar hafa vaknað um skapgerð hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×