Umfjöllun: Tindastóll - Þór Þ. 85-68 | Meistaraefnin byrja á sigri

Róbert Reynisson í Síkinu á Sauðárkróki skrifar
Vísir/Bára
Meistararefnin í Tindastól byrja tímabilið í Dominos-deildinni á sautján stiga sigri á Þór Þorlákshöfn, 85-68, er liðin mættust í fyrstu umferð deildarinnar í Síkinu í kvöld.

Það var jafnræði með liðunum framan af fyrsta leikhluta en heimamenn í Tindastól breyttu stöðunni úr 13-11 í 22-15. Þannig stóðu leikar efitr fyrsta leikhluta.

Mikið var skorað í öðrum leikhluta en ávallt voru heimamenn skrefi á undan. Þeir náðu mest 28 stiga forskoti í öðrum leikhluta og virtust vera að sigla fram úr.

Gestirnir úr Þorlákshöfn gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn hægt og rólega fyrir hálfleik en er liðin gengu til búningsherbergja var munurinn einungis ellefu stig, 44-33.

Í þriðja og fjórða leikhluta voru heimamenn í Tindastól ávallt skrefinu á undan. Sigurinn var aldrei í hættu en þeir náðu góðu forskoti í fjórða leikhluta. Þeir slökuðu svo aðeins á klónni og lokatölurnar 85-68.

Afhverju vann Tindastóll?

Einfaldlega með betra lið. Eru með sterkari lið, sterkari bekk og voru á heimavelli. Þór verður að berjast í neðri hlutanum á meðan Tindastóll er meistaraefni. Þeir verða að berjast á toppnum og sýndu það í kvöld að þeir eru með hörkulið. Hrós þó á Þórsara sem gáfust aldrei upp og gætu nælt sér í stig á erfiðum útivöllum með svona frammistöðum.

Hverjir voru bestir?

Stóru mennirnir í liði heimamanna; Urald King og Danero Thomas áttu afar góðan leik. Urald skoraði 25 stig og tók 13 fráköst en Danero skoraði átján og tók fjögur fráköst. Brynjar Þór Björnsson gerði fjórtán stig í sínum fyrsta heimaleik í Síkinu.

Hjá gestunum var það Bandaríkjumaðurinn, Kinu Rochford, sem var stigahæstur með 21 stig og tók sautján fráköst! Næstur kom Gintautas Matulis með fimmtán stig og átta fráköst. Halldór Garðar Hermannsson öflugur sem fyrr; með tólf stig og fimm fráköst.

Hvað gerist næst?

Tindastóll byrjar á tveimur heimaleikjum en þeir mæta Grindavík á heimavelli á mánudagskvöldið á meðan Þórsarar fara heim í Glacier-höllina og mæta ÍR.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira