Innlent

Oddvitinn telur sterkari rök fyrir stórbrú yfir mynni Þorskafjarðar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps.
Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Oddviti Reykhólahrepps telur sterkari rök fyrir því að brúa mynni Þorskafjarðar fremur en að leggja Vestfjarðaveg um Teigsskóg. Álit Vegagerðarinnar, sem væntanlegt er í næstu viku, gæti ráðið miklu um hvor leiðin verði ofan á. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. 

Þetta gæti orðið ein stærsta ákvörðunin í vegamálum Vestfirðinga á næstunni; hvort fallið verði frá því að leggja svokallaða Þ-H leið um Teigsskóg en stefnan tekin í staðinn á R-leið með stórbrú yfir mynni Þorskafjarðar. 

En það er líka hörð andstaða gegn brúarhugmyndinni,- eins og heyra mátti í fréttum í gær, - frá bændum, sem vilja ekki fá veginn frá brúarsporðinum í gegnum jarðir sínar.

Frá Reykhólum. Vestfjarðavegur færi um hlaðið verði R-leið valin með brú yfir mynni Þorskafjarðar.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Annar tónn heyrist úr eina þéttbýli hreppsins, Reykhólum, en brúarleiðin þýddi að Vestfjarðavegur færi um hlaðið á þorpinu, sem gæti skapað ný tækifæri fyrir íbúana þar. 

„Okkur náttúrlega í þorpinu líst mjög vel á þá hugmynd. En Vegagerðin vill skoða þetta eitthvað nánar,“ segir Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps. 

Bændurnir á Stað, þau Kristján og Rebekka, segjast tilbúin að nýta allar kæruleiðir gegn brúarleiðinni. En er þá ekki ástæða til að óttast að sömu lætin verði í kringum þá tillögu eins og hina? 

„Nei, ég held ekki. Það eru engin svæði á náttúruminjaskrá sem verður farið í gegnum með þessari R-leið. En það er með Þ-H leiðina. Ég sé ekki að sömu læti geti orðið.

Að minnsta kosti þá eru rökin fyrir því að fara þessa leið, að því er mér finnst allavega, miklu sterkari heldur en hina leiðina,“ segir Ingimar.

Kristján Þór Ebenserson og Rebekka Eiríksdóttir, bændur á Stað í Reykhólasveit.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Oddvitinn tilkynnti okkur það nú bara að það væri bara þannig að minni hagsmunir þyrftu að víkja fyrir þeim meiri og að við værum minni hagsmunirnir,“  segir Kristján Þór Ebeneserson, bóndi á Stað. 

Samgönguáætlun gerir ráð fyrir 6,7 milljörðum króna í veg um Gufudalssveit á næstu fjórum árum, en með fyrirvara um að niðurstaða fáist um veglínu. Í hvaða farveg málið fer skýrist betur í næstu viku en þá hyggst Vegagerðin birta mat sitt á því hvað brúarleiðin kostar, í samanburði við Teigsskóg, og hvaða tímaramma hún þyrfti.

Leið Þ-H færi um Teigsskóg. Leið R færi um Stað og Reykhóla.Grafík/Hlynur Magnússon.
En er oddvitinn bjartsýnn á að unnt verði að hefja framkvæmdir á næsta ári? 

„Já, ég er bjartsýnismaður. Ég geri ráð fyrir því að við keyrum bara á þetta og byrjum að framkvæma á næsta ári,“ svarar Ingimar. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×