Enski boltinn

Gylfi um markið: Fann strax að hann væri á leiðinni inn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gylfi kann að skjóta boltanum
Gylfi kann að skjóta boltanum vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson segir glæsimark sitt fyrir Everton um helgina vera eitt af sínum bestu. Hann vissi að boltinn væri á leiðinni inn um leið og hann skaut honum.

Gylfi tryggði Everton sigur á Leicester með sigurmarki á 77. mínútu. Markið var af fallegri gerðinni, langskot fyrir utan teig sem sveif yfir Kasper Schmeichel og í vinstra hornið.

„Þetta var klárlega fín leið til að ná í 50. markið mitt í úrvalsdeildinni. Nú get ég reynt við 100 mörk. Það eru ekki margir sem hafa náð 100 mörkum svo ef ég næði því þá væri það ótrúlegt,“ sagði Gylfi við Telegraph eftir leikinn.

Markasafn Gylfa Þórs Sigurðssonar er sennilega álíka tilkomumikið og skartgripasafn Bretadrottningar.Vísir/Getty
„Ég á nokkur ár inni og verð vonandi meiðslalaus. Ef ég held áfram að skora mörk þá kemur bara í ljós hvar ég enda.“

Gylfi er næst markahæsti Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni, Eiður Smári Guðjohnsen skoraði 55 mörk á sínum ferli.

Mörk Gylfa eru oftar en ekki af dýrari gerðinni, hans fyrsta mark fyrir Everton kom af miðjunni í Evrópuleik við Hajduk Split. Hvar setur hann þetta mark í röð bestu marka sinna?

„Þetta er með þeim bestu. Ef fólk er nú þegar farið að tala um þetta sem mark tímabilsins þá sætti ég mig við það.“

„Frá því boltinn fór af fætinum á mér þá fann ég á mér að hann væri á leiðinni inn. Ég hitti boltann mjög vel. Maður veit aldrei með þessa bolta, en það var skemmtilegt að sjá hann detta í lokin.“

„Ég hef aldrei verið hræddur við að skjóta og æfi mig mikið á æfingasvæðinu,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson.


Tengdar fréttir

Gylfi fyllti fimm tugina með draumamarki

Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Everton sigur á Leicester City á laugardaginn með sínu fimmtugasta marki í ensku úrvalsdeildinni. Markið var í glæsilegri kantinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×