Handbolti

Einar Jóns: Var að fara að skipta Hreiðari útaf þegar hann lokaði búrinu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Einar á síðustu leiktíð.
Einar á síðustu leiktíð. vísir/ernir
„Ég er náttúrulega gríðarlega stoltur af strákunum fyrir að hafa klárað þetta. Þetta var alveg ótrúlega góður sigur hjá okkur,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Gróttu eftir sigur sinna manna gegn KA á Akureyri í kvöld.

Einar sagði sína menn ekki hafa spilað vel í kvöld en hann var ánægður með karakterinn í sínu liði gegn flottu KA liði.

„Að koma hérna í KA heimilið, fullt hús, frábær stemmning og taka tvo punkta. Það verður ekki mikið betra en það,“ bætti Einar við.

KA menn leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 14 – 10 og sagði Einar að allir í hans liði, bæði þjálfarar og leikmenn, hefðu verið óánægðir með nokkra hluti sem búið var að fara yfir.

„Við vorum að gera hluti mjög illa, bæði í vörn og sókn og mér fannst menn laga það í seinni hálfleiknum. Vörnin var betri og Bjartur kom inn í síðari hálfleik algjörlega frábær og Hreiðar lokar markinu síðasta korterið eða svo,“ sagði Einar og bætti við:

„Við vorum aðeins agaðri sóknarlega. Örugglega ekki flottasti sóknarleikur sem að sést hefur en við gerðum nóg og þá er ég sáttur.“

Bæði lið áttu erfitt með að halda boltanum innan sinna raða í upphafi síðari hálfleiks og sagði Einar það hafa farið í sig. Hann sagði það þó ekki hafa breyst mikið í síðari hálfleik.

„Vörnin varð betri og svona jú þetta var nú aðeins skárra í seinni hálfleik sóknarlega en töpuðu boltarnir voru of margir en við unnum.“

Eins og Einar kom inn á var Hreiðar Levý drjúgur í síðari hálfleiknum og ekki síst á síðustu mínútu leiksins þegar hann varði þrjú skot í sömu sókninni. Spurður út í mikilvægi markmanns í hans gæðaflokki stóð ekki á svari.

„Ég held að það sé nú bara mikilvægt fyrir öll lið að hafa góðan markmann í rammanum. Jovan var frábær hér í dag. Ég var nú að fara að skipta Hreiðari útaf þegar hann ákvað að loka búrinu og var frábær,“ sagði Einar og bætti við að Hreiðar væri vissulega stór hluti af Gróttu liðinu og væri búinn að vera frábær í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×