Viðskipti innlent

Kreditkortanotkun verði ódýrari

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Breytingarnar gætu lækkað kostnað við notkun kreditkorta.
Breytingarnar gætu lækkað kostnað við notkun kreditkorta. Vísir/pjetur
Ný lög um greiðslukortaviðskipti gætu sparað neytendum rúmlega milljarð á ári, samkvæmt útreikningum fjármálaráðuneytisins.

Í frumvarpsdrögunum, sem fjármálaráðherra hyggst leggja fram, er kveðið á um að hámark verði sett á milligjöldin sem greiðslukortafyrirtæki rukka fyrir notkun kortanna. Fyrirtækin mega í dag innheima 0,2 prósent af fjárhæð greiðslunnar þegar notað er debetkort en 0,6 prósent þegar greitt er með kreditkorti.

Nýju lögin myndu hins vegar lækka kreditkortahámarkið um helming, niður í 0,3 prósent, en áfram mætti innheimta 0,2 prósent að hámarki við notkun debetkorta. Lögin kveða að sama skapi á um bann við svæðisbundnum takmörkunum í leyfissamningum.

Verði frumvarpið að lögum áætlar fjármálaráðuneytið að það gæti sparað neytendum um 1,15 milljarð á ári - að því gefnu að breytingin muni skila sér að fullu til neytenda. Að sama skapi gæti breytingin lækkað tekjur greiðslukortafyrirtækjanna og gæti því dregið úr hvata þeirra til gefa út greiðslukort.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×