Erlent

Árásarmaðurinn í Maryland var 26 ára kona

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin var gerð í bænum Perryman, norðaustur af Baltimore.
Árásin var gerð í bænum Perryman, norðaustur af Baltimore. Vísir/Getty
Kona á þrítugsaldri skaut þrjá til bana og særði þrjá til viðbótar í árás við og í vöruhúsi í Marylandríki í Bandaríkjunum fyrr í dag. Hún skaut svo sjálfa sig í höfuðið og lést á sjúkrahúsi nokkru síðar.

Í frétt BBC  kemur fram að hin 26 ára Snochia Moseley hafi framkvæmt árásina í vöruhúsi fyrir lyf í bænum Perryman, norðaustur af Baltimore. Ekki liggur fyrir um ástæður árásarinnar.

Skotárásir þar sem árásarmaðurinn er kona eru sjaldgæfar í Bandaríkjunum, en karlmenn bera ábyrgð á rúmlega 95 prósent slíkra árása.

Snochia Moseley.Facebook
Talsmaður lögreglu segir að Moseley hafi verið starfsmaður í afleysingum í vöruhúsinu og hafi mætt þangað til vinnu í morgun venju samkvæmt. Skömmu eftir klukkan níu í morgun að staðartíma hafi hún hins vegar byrjað að skjóta úr byssu fyrir utan vöruhúsið og síðar innandyra.

Lögregla var mætt á staðinn um fimm mínútum eftir að fyrsta tilkynning barst. Þá hafði Moseley banað þremur og sært þrjá til viðbótar og lá alvarlega særð á jörðinni. 

Byssan, 9 millimetra Glock, var skráð á Moseley.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×