Erlent

Furðuskepnan Dickinsonia reyndist elsta dýr jarðsögunnar

Kjartann Hreinn Njálsson skrifar
550 milljóna ára gamall Dickinsonia-steingervingur.
550 milljóna ára gamall Dickinsonia-steingervingur. Vísir/Getty
Vísindamenn við ríkisháskólann í Ástralíu tilkynntu í gær að þeir hefðu fundið fitusameindir í steingervingi af dýri sem var á lífi fyrir 558 milljónum ára.

Steingervingurinn, sem er af tegundinni Dickinsonia, tilheyrir Edicara-fánunni en það eru steingerð fyrirbæri sem finnast í jarðlögum frá tímanum fyrir kambríum­tímabilið þegar fjölfrumungar spruttu fram í miklum mæli.

Dickinsonia var furðuvera mikil. Vísindamenn hafa deilt um það hvort flokka eigi fyrirbærið sem dýr, sveppi, fléttur, amöbur eða leifar af horfnu ríki náttúrunnar.

Dickinsonia var sívalur ormur og náði allt að 1,4 metra lengd. Dýrið, líkt og öll dýr frá Edicara-tímabilinu, hafði hvorki skel né bein. Er dýrið talið hafa liðast eftir sjávarbotninum eins og slanga.

Vísindamennirnir fundu vel varðveittan steingerving af Dickinsonia við Hvítahaf í Rússlandi. Í honum var vefur sem hafði að geyma kólesteról-sameindir.

„Þessi ævaforna fita staðfestir að Dickinsonia er elsti dýrasteingervingurinn, og þar með áratugagömul ráðgáta sem kölluð hefur verið hið heilaga gral steingervingafræðanna hefur verið leyst,“ segir Jochen ­Brooks, prófessor í jarðefnafræði við ríkisháskólann í Ástralíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×