Enski boltinn

Upphitun: Jói Berg og Manchester-liðin í eldlínunni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. Vísir/Getty
Sjötta umferð ensku úrvalsdeildarinnar fer af stað í dag með átta leikjum. Íslendingaliðin Cardiff og Burnley eru í eldlínunni ásamt Manchester-liðunum og Liverpool.

Hádegisleikur dagsins er viðureign nýliðanna í Fulham og Watford. Watford var ósigrað þar til um síðustu helgi þegar Manchester United mætti á Vicarage Road og nældi í sigur.

Sex leikir fara fram klukkan 14:00. Manchester City sækir nýliða Cardiff heim. Aron Einar Gunnarsson meiddist á æfingu Cardiff í vikunni og mun því ekki koma við sögu í leiknum.

Manchester United fær nýliða Wolves í heimsókn í fyrsta heimaleik sínum síðan liðið steinlá fyrir Tottenham í lok ágúst.

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley eru enn án sigurs í deildinni og sitja á botni deildarinnar með eitt stig, líkt og Newcastle. Þeir fá Bournemouth í heimsókn á Turf Moor.

Liverpool fær Southampton í heimsókn og getur endurheimt toppsæti deildarinnar af Chelsea, að minnsta kosti tímabundið. Liverpool og Chelsea eru einu liðin sem eru enn með fullt hús stiga.

Lokaleikur deildarinnar er leikur Brighton og Tottenham. Tottenham er með níu stig líkt og Arsenal og Manchester United.

Leikir dagsins:

11:30 Fulham-Watford, í beinni á Stöð 2 Sport

14:00 Burnley - Bournemouth

14:00 Cardiff - Manchester City

14:00 Crystal Palace - Newcastle

14:00 Leicester - Huddersfield

14:00 Liverpool - Southampton, í beinni á Stöð 2 Sport

14:00 Manchester United - Wolverhampton

16:30 Brighton - Tottenham




Fleiri fréttir

Sjá meira


×