Enski boltinn

Sir Alex um endurkomuna: Ég hef það mjög gott

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
mynd/twitter/Manchester United
Sir Alex Ferguson var mættur á Old Trafford í gær, tæpum fimm mánuðum eftir að hann fékk heilablóðfall. Hann var stressaður fyrir því að snúa aftur í sætið sitt.

Ferguson hefur verið tíður gestur í stúkunni á Old Trafford eftir að hann hætti sem knattspyrnustjóri Manchester United. Hann var heiðraður af stuðningsmönnum beggja liða þegar hann gekk til sætis síns fyrir leik United og Wolves í gær.

„Ég hef það mjög gott. Þetta hefur verið langt ferðalag og ég fer hægt og rólega áfram, geri það sem sonur minn og læknarnir segja mér að gera,“ sagði Ferguson við MUTV fyrir leikinn.

„Ég er svolítið stressaður því ég held að síðasti leikur sem ég kom á var gegn Arsenal í apríl. Það er langt síðan en það er frábært að vera kominn til baka og ég vona bara að við vinnum í dag.“

Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Fred kom United yfir í fyrri hálfleik en Joao Moutinho jafnaði fyrir Wolves í þeim seinni.

„Það er frábært að vera kominn aftur á völlinn og þetta verður tilfinningarík stund fyrir mig þegar leikurinn hefst. En ég varð að snúa aftur á endanum og ég hef hlakkað til þess.“

„Það mikilvægasta var að ná að hvíla mig vel áður en ég kom á völlinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×