Enski boltinn

Messan um skiptingu Shaqiri: Eðlilegt að hvíla hann og fara í reitarbolta í seinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Shaqiri var allt í öllu í fyrri hálfleik á Anfield á laugardaginn
Shaqiri var allt í öllu í fyrri hálfleik á Anfield á laugardaginn vísir/getty
Xherdan Shaqiri var maðurinn á bak við tvö af þremur mörkum Liverpool í sigrinum á Southampton um helgina. Þrátt fyrir það tók Jurgen Klopp hann út af í hálfleik.

Shaqiri átti skot snemma leiks sem fór af varnarmanni Southampton og í netið, skráð sem sjálfsmark en búið til af Svisslendingnum. Hann tók svo aukaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks sem fór í þverslánna og Mohamed Salah potaði frákastinu í netið.

Í millitíðinni hafði Joel Matip skorað mark úr hornspyrnu svo Liverpool var 3-0 yfir í hálfleik. Jurgen Klopp sagði eftir leikinn að þetta hefði verið taktísk breyting.

Sérfræðingar Messunnar á Stöð 2 Sport ræddu þessa breytingu í þætti gærkvöldsins og var Ríkharð Óskar Guðnason, þáttstjórnandi, stórfurða yfir skiptingunni. Sérfræðingar hans voru hins vegar ekki eins hissa á aðgerðum Klopp.

„Þeir voru 3-0 yfir í hálfleik og það er bara eðlilegt ef það hentar skipulaginu að hann vill bara verja þetta og sigla þessu heim, eins og hann gerði,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson.

Jón Kaldal tók undir það. „Ég skildi þetta alveg. Hann var bara að hlífa honum. Hann er að detta betur og betur inn í leik liðsins, hvíldu hann. Ert í 3-0 og ferð bara í reitarbolta og drepur leikinn í seinni.“

Liverpool er eina liðið sem ekki hefur tapað stigum í ensku úrvalsdeildinni og trónir á toppnum. Liðið vann PSG í Meistaradeildinni í síðustu viku og mætir Chelsea í næstu tveimur leikjum, í deildarbikarnum á miðvikudag og í deildinni á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×