Enski boltinn

Jói Berg fær mikið hrós: Svo góður að bakvörðurinn var tekinn út af

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Knattspyrnustjórinn Dyche horfir á Jóhann Berg í baráttunni
Knattspyrnustjórinn Dyche horfir á Jóhann Berg í baráttunni vísir/getty
Jóhann Berg Guðmundsson er einn af lykilmönnum enska úrvalsdeildarliðsins Burnley og frammistaða hans í leik Burnley og Bournemouth um helgina fékk mikið lof.

Danny Murphy, sérfræðingur þáttarns Match of the Day á BBC, hrósaði íslenska landsliðsmanninum í hástert. Jóhann lagði upp eitt mark Burnley í 4-0 sigrinum og annað kom í kjölfar skots Jóhanns sem hafnaði í stönginni.

„Guðmundsson var stjarnan í leiknum,“ sagði Murphy í þættinum á laugardagskvöld.

„Ég hef séð Sean Dyche gera þetta áður, setja örfættan mann á hægri kantinn og réttfættan mann á þann vinstri og bakverðir Bournemouth réðu ekki við það í fyrri hálfleik.“

„Guðmundsson er með frábæran vinstri fót, fyrirgjafir hans eru með því besta sem ég hef séð. Hann getur líka sent fyrir með hægri, ég elska kantmenn sem geta notað báða fætur.“

„Hann var frábær í dag. Bakvörðurinn sem var á móti honum í fyrri hálfleik var tekinn út af í hálfleik því það var svo illa farið með hann.“

Burnley hefur byrjað tímabilið illa og var liðið í botnsæti deildarinnar með eitt stig fyrir leiki helgarinnar. Í upphafi tímabilsins var liðið í forkeppni Evrópoudeildarinnar og það tók greinilega sinn toll. Burnley er hins vegar dottið út úr Evrópudeildinni og Murphy hefur ekki áhyggjur af liðinu það sem eftir er af tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×