Skoðun

Víkingaklapp fyrir verðlagið

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Ég var staddur á spænskri ferðaskrifstofu fyrir stuttu þegar þjóðerni mitt barst í tal og þar sem mannmergð var allnokkur hafði ég uppi hin fegurstu orð um landið og hnykkti út með því að ferðaskrifstofan ætti að bjóða upp á ferðir þangað. Svarið var stutt:

„Ísland er svo dýrt, það þýðir ekkert.“

Ég vissi að frúin fór ekki með fleipur en mér fannst sárt að sitja undir þessu enda voru allra augu á mér líkt og ég bæri ábyrgð á dýrtíðinni. Af hverju gat hún ekki talað um víkingaklappið, Of Monsters and Men eða Sigur Rós, án þess þó að minnast á tollamálin? En þar sem ég hef lítillega tekið þátt í bæjarpólitíkinni ákvað ég nú að bregða mér í gervi stjórnmálamannsins til að verjast áganginum. Tók ég mér til fyrirmyndar José María Azanar, sem var formaður Lýðflokksins þegar spilling flokksins náði óþekktum hæðum, en hann kom fyrir þingið í síðustu viku og kannaðist ekkert við fyrrverandi fjármálastjóra sinn sem situr nú í fangelsi fyrir að safna mútugreiðslunum á reikning sinn í Sviss og allir dómar sem fellt hefðu flokksmenn og svert flokkinn voru bara einhver misskilningur. Svo fór hann hlæjandi eins og hross og sagði fundinn hafa verið hina mestu skemmtan. Ef hann gat varið þennan flokk sinn með töffarasvip og hlátrasköllum hlýt ég að geta varið föðurlandið þegar á reynir, hugsaði ég með mér.

„Ég hef tvisvar fengið verðandi hjón sem ætluðu að fara til Íslands í brúðkaupsferð,“ sagði frúin meðan ég setti upp töffarasvipinn, „en þegar þau áttuðu sig á verðlaginu ákváðu þau að fara bara til Noregs.“

„Til Noregs?“ sagði ég meðan ég áttaði mig á því að mínum stutta stjórnmálaferli var lokið.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×