Innlent

Rekstrarumhverfi á heildsölumarkaði lyfja farið versnandi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Rannsóknin var unnin fyrir Frumtök af ráðgjafarfyrirtækinu Intellecon.
Rannsóknin var unnin fyrir Frumtök af ráðgjafarfyrirtækinu Intellecon. Mynd/aðsend
Rekstrarumhverfi á heildsölumarkaði lyfja á Íslandi hefur farið versnandi undanfarin ár samkvæmt nýrri rannsókn. Fyrirtæki á lyfjamarkaði finna til ábyrgðar þegar sjúklingar fá ekki nauðsynleg lyf að sögn framkvæmdastjóra samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Átta ára drengur hefur ekki fengið nauðsynleg gigtarlyf vegna vandamáls sem kom upp hjá flutningsaðila.

Rannsóknin var unnin fyrir Frumtök, samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Í skýrslunni er dregin upp nokkuð dökk mynd af stöðunni og segir meðal annars að ef fer sem horfir gæti rekstrargrundvöllur verið í hættu sem gæti leitt til þess að hið opinbera yrði að taka yfir hlutverk innlendra þjónustufyrirtækja á lyfjamarkaði. Ýmislegt bendi til þess að komið sé að þolmörkum.

„Rekstrarumhverfið þegar launahækkanir hafa verið jafn miklar og raun ber vitni, krónan hefur styrkst eins og við vitum mjög mikið á undanförnum árum, kostnaður hefur vaxið mjög mikið en það hefur ekki í raun og veru verið tekið tillit til þess þegar horft er til þess hvernig markaðurinn er verðlagður og hvernig honum er þjónustað af hálfu hins opinbera,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

Ekki í lagi að sjúklingar séu á lyfja

Hann segir kostnað vegna regluverks vera orðinn íþyngjandi en lyfjaverð hér á landi er ákvarðað af hinu opinbera. „Það er eitt af því sem taka þarf til athugunar er hvort að verðumgjörðin á Íslandi sé í raun og veru farin að hamla framboðinu inn á þennan markað,“ segir Jakob Falur.

Að undanförnu hafa ítrekað borist fréttir af því að nauðsynleg lyf séu ófáanleg. Sem dæmi hafa konur sem greinst hafa með brjóstakrabbamein og eru í fyrirbyggjandi lyfjameðferð neyðst til að vera lyfjalausar eða þær lánað hver annarri lyf.

„Það er auðvitað ekki í lagi að krabbameinssjúklingar, eins og komið hefur fram til dæmis í fjölmiðlum að undanförnu, þurfi að standa frami fyrir því að grípa í tómt. Við finnum til ábyrgðar og við að sjálfsögðu munum leita allra leiða til þess að fara yfir ásamt öllum þeim sem koma að málinu, fara yfir hvað og hvernig má þá í raun og veru gera betur, af hverju við getum lært og í raun og veru komið í veg fyrir að svona hlutir gerist,“ segir Jakob Falur. 

Heilbrigðisráðherra hyggst leggja fram nýtt frumvarp á íslenskri lyfjalöggjöf í vetur. Jakob Falur segir mikilvægt að þessir þættir verði hafðir til hliðsjónar í þeirri vinnu sem framundan sé við endurskoðun laganna. Lyfjastofnun hefur boðað fulltrúa framleiðenda og heildsöludreifingar til fundar á morgun þar sem rætt verður hvernig unnt sé að koma í veg fyrir tilfelli sem þessi. Í samtali við fréttastofu segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, að vonir standi til um að drög að aðgerðaáætlun vegna lyfjaskorts verði tilbúin við lok vikunnar.



Átta ára fær ekki lyf vegna hitastigsfráviks í flutningi

Hitastigsfrávik sem upp kom í flutningum gerði það að verkum að átta ára drengur hefur ekki fengið nauðsynleg gigtarlyf síðan í júní. Rúv greindi frá því í gær að átta ára drengur hafi mátt líða kvalir og hafi misst úr skóla þar sem gigtarlyfin sem hann þarf á að halda séu ófáanleg hér á landi. 

Það er Icepharma hf. sem er heildsali lyfsins hér á landi en í samtali við fréttastofu segir Hörður Þórhallsson, forstjóri Icepharma hf, að fyrirtækið hafi fengið birgðir af lyfinu sendar en ekki hafi verið hægt að setja lyfið í dreifingu vegna hitastigsfráviks sem upp kom hjá flutningsaðila sem gerði það af verkum að kröfur voru ekki uppfylltar.

Ýmislegt getur komið upp sem verður þess valdandi að lyf eru ófáanleg hér á landi. Hörður segir alltaf alvarlegt þegar slíkt gerist en hann telur að hægt sé að bæta úr og draga úr slíkum tilfellum ef hlutaðeigandi komi sér saman um verklag.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×