Innlent

Útilokar ekki að skýrsla Hannesar gefi tilefni til að ræða við Breta

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála-og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála-og efnahagsráðherra. vísir/vilhelm
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, útilokar ekki að íslensk stjórnvöld taki upp þráðinn á nýju við Breta vegna framkomu breskra yfirvalda í garð Íslands í bankahruninu haustið 2008.

Þetta kom fram í máli Bjarna á Alþingi í dag þar sem hann svaraði fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formann Miðflokksins, um hvort og þá hvernig ráðherra ætlaði sér að fylgja eftir niðurstöðum nýrrar skýrsla Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins.

Þar komst skýrsluhöfundur að að þeirri niðurstöðu að beiting hryðjuverkalaganna bresku 8. október árið 2008 gegn Landsbankanum, Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu hafi verið ruddaleg og óþörf aðgerð. Bresk yfirvöld skuldi íslensku þjóðinni afsökunarbeiðni vegna beitingar hryðjuverkalaganna og framgöngunnar í Icesave-málinu.

Sagði Bjarni að mikilvægt væri að hafa í huga að íslensk yfirvöld hafi í gegnum tíðina margoft gert athugasemdir gagnvart breskum ráðamönnum vegna þeirra aðgerða sem bresk stjórnvöld lögðust í haustið 2008 gagnvart Íslandi.

„Það hef ég gert við mörg tækifæri sjálfur, persónulega, en ég ætla alls ekki að útiloka að skýrslan gefi tilefni til þess að taka upp þráðinn sérstaklega í einhverjum tilvikum án þess að ég sé tilbúinn til þess að úttala mig um hvaða mál það yrðu nákvæmlega sem þar ættu í hlut,“ sagði Bjarni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×