Gylfi með tvö mörk í öðrum sigri Everton

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi Þór fagnar hér marki sínu.
Gylfi Þór fagnar hér marki sínu. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson var heldur betur í stuði er Everton vann 3-0 sigur gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni á Goodison Park í dag.

Staðan var markalaus í hálfleik og það var lítið að frétta í leik Everton í fyrri hálfleik en allt annað var að sjá liðið í síðari hálfleik.

Everton fékk vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks. Gylfi steig á punktinn en náði ekki að koma boltanum í netið og staðan enn markalaus.

Gylfi var hins vegar aftur á ferðinni 56. mínútu. Eftir darraðadans fékk Gylfi boltann fyrir utan teiginn og þrumaði boltanum með vinstri í fjærhornið.

Tíu mínútum síðar var það svo Tyrkinn, Cenk Tosun, sem kom Everton í 2-0 og á lokamínútu venjulegs leiktíma var Gylfi svo aftur á ferðinni með annað mark sitt eftir undirbúning Bernard.

Þetta var mikilvægur sigur Everton sem hefur gengið brösuglega upp á síðkastið. Þeir eru nú með níu stig í ellefta sæti deildarinnar en Fulham er í fjórtánda sætinu með fimm stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira