Innlent

Sig­mundur Davíð: „Verða þeir stoppaðir við nýju tolla­hlið sam­göngu­ráð­herra og sagt að hjóla að borgar­línunni?“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Vísir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var harðorður í garð ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins, síns gamla flokks, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. Hann sagði að erfitt hefði verið að fylgjast með Framsókn gefa eftir sín helstu kosningaloforð í ríkisstjórnarsamstarfinu.

Sigmundur gagnrýndi Katrínu Jakobsdóttur fyrir að útlista aðeins „göfug stefnumál“ en að leggja ekki til neinar aðferðir. „Hvernig á að ná markmiðunum?“ spurði Sigmundur Davíð. Það litla sem hafi verið sagt um það hafi verið „í anda sýndarpólitíkur og kerfisvæðingar.“

Þá sagði hann jafnlaunavottun ríkisstjórnarinnar „stolnar fjaðrir“ og að hann minnti að Viðreisn hafi átt veg og vanda að henni á sínum tíma. „En málið er jafnvitlaust fyrir það,“ bætti Sigmundur þó við og uppskar hlátur úr sal.

Átakanleg svik Framsóknarflokksins við landsbyggðina

Sigmundur var einnig harðorður í garð nýrrar loftslagsáætlunar sem ríkisstjórnin kynnti í fyrradag. Hann sagði áætlunina aðallega snúast um bönn og sýndaraðgerðir. Þá væri fjölgun rafmagnsbíla vissulega göfugt markmið, en að fráleitt sé að bensín og díselbílar verði bannaðir. Einhverjar undanþágur yrðu þó fyrir fólk á einhverjum stöðum á landsbyggðinni.

„Ætli þeir fái að koma til borg­ar­inn­ar á bens­ín­bíl­un­um sín­um eða verða þeir stoppaðir við nýju tollahlið samgönguráðherra og sagt að hjóla að borgarlínunni?“

Að síðustu sagði Sigmundur að þungbært væri að horfa upp á Framsóknarflokkinn gefa upp öll sín stærstu kosningaloforð fyrir þrjá ráðherrastóla. Um sé að ræða átakanleg svik Framsóknar við landsbyggðina og innlenda matvælaframleiðslu.

Þá lauk hann ræðunni með lokaskoti á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur:

„Við erum með ríkisstjórn sem snýst bara um eitt, hún snýst bara um sjálfa sig.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×