Enski boltinn

Gylfi tók toppsætið af Eiði Smára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og Eiður Smári Guðjohnsen.
Gylfi Þór Sigurðsson og Eiður Smári Guðjohnsen. Samsett/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson er nú kominn upp fyrir Eið Smára Guðjohnsen í sköpuðum mörkum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson skoraði fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni í gær og er þar með einn í efsta sæti yfir flest sköpuðu mörk Íslendinga í deildinni. Hér er farið eftir opinberri tölfræði ensku úrvalsdeildarinnar.

Gylfi tók metið af Eið Smára í gær en hann hafði jafnað það með stoðsendingu á móti Bournemouth í lok ágúst. Eiður Smári hélt einmitt upp á fertugsafmælið sitt um helgina þar sem snjósleðar og trampólín komu við sögu.

Gylfi hefur með markinu á móti West Ham á Goodison Park í gær komið með beinum hætti að 84 mörkum í ensku úrvalsdeildinni.





Þetta var 47. markið hans og hann hefur einnig gefið 37 stoðsendingar á félaga sína.

Eiður Smári Guðjohnsen er enn með átta marka forskot í skoruðum mörkum en Eiður skoraði á sínum tíma 55 mörk í ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi er aftur á móti kominn 9 stoðsendingum fram úr Eiði og er sá íslenski knattspyrnumaður sem hefur gefið flestar stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi spilaði sinn 214. leik í ensku úrvalsdeildinni í gær en Eiður Smári spilaði á sínum tíma 211 leiki í deildinni. Leikjahæstur Íslendinga í deildinni er hins vegar Hermann Hreiðarsson með 332 leiki. Gylfi þarf því að leika að minnsta kosti fjögur tímabil í viðbót í deildinni til að ná Hermanni.

Gylfi og Eiður Smári eru með yfirburðarstöðu á þessum lista yfir sköpuð mörk en þeir hafa komið að meira en tvöfalt fleiri mörkum en sá sem er í þriðja sætinu. Sá er Heiðar Helguson.

Það má sjá allan topplistann hér fyrir neðan.



Flest mörk+stoðsendingar hjá Íslendingum í ensku úrvalsdeildinni:

1. Gylfi Þór Sigurðsson  84 mörk

(47 mörk + 37 stoðsendingar)

2. Eiður Smári Guðjohnsen 83 mörk

(55 mörk + 28 stoðsendingar)

3. Heiðar Helguson 37 mörk

(28 mörk + 9 stoðsendingar)

4. Hermann Hreiðarsson 29 mörk

(14 mörk + 15 stoðsendingar

5. Jóhann Berg Guðmundsson 14 mörk

(3 mörk + 11 stoðsendingar)

6. Guðni Bergsson 12 mörk

(8 mörk + 4 stoðsendingar)

6. Grétar Rafn Steinsson 12 mörk

(4 mörk + 8 stoðsendingar)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×