Skoðun

Drifkraftur hagkerfisins

Una Steinsdóttir skrifar
Rétt yfir 97% íslenskra fyrirtækja eru með veltu undir 500 milljónum króna og hlutfall þeirra í heildarveltu fyrirtækja á árinu 2016 var um 56%.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í greiningu um lítil og meðalstór fyrirtæki (LMF) sem Reykjavík Economics vann nýlega fyrir Íslandsbanka.

Önnur afgerandi niðurstaða er sú að 99% fyrirtækja eru með færri en 49 starfsmenn í vinnu og innan við 200 fyrirtæki hafa 100 starfsmenn eða fleiri. Í þessari greiningu var skilgreiningin á LMF þrengd miðað við það sem tíðkast almennt annarsstaðar í Evrópu, annars hefðu afar fá fyrirtæki verið skilgreind sem stór hér á landi. Meðal þess sem vakti athygli er að fyrirtæki með veltu á bilinu 250-500 milljónir króna hafa vaxið mjög hratt síðustu árin og þegar litið er til arðsemi, sem skiptir höfuðmáli í rekstri, hefur arðsemi minni fyrirtækja síst verið lakari en þeirra stærri. Þannig getur fyrirtæki með litla veltu en mikla arðsemi verið mikilvægara fyrir þjóðarbúskapinn og viðgang hagvaxtar en fyrirtæki með mikla veltu en litla arðsemi.

Margur er knár þó hann sé smár, það á líka við í einfaldri hagfræði. Fyrirtækjum hefur fjölgað verulega í öllum landshlutum á árunum 2008-2016 og ánægjulegt er að sjá að landsbyggðin hefur meira en haldið hlut sínum í þeim vexti. Hlutfallsleg fjölgun utan suðvesturhornsins var til að mynda 37% á Vestfjörðum og eins og um allt land er það ferðaþjónustan sem á stóran þátt í þeirri fjölgun. Þetta er að gerast þrátt fyrir lítillega fækkun íbúa og er merki um öfluga frumkvöðlastarfsemi á svæðinu.

Það er ánægjulegt að sjá í skýrslunni svart á hvítu að skuldsetning meginþorra LMF hefur minnkað síðustu árin og um leið hafa eiginfjárhlutföll hækkað. Fyrirtæki í ferðaþjónustu og tengdri starfsemi eru þó enn skuldsettari en önnur fyrirtæki. Skuldsetning þessara fyrirtækja skýrist eðlilega af miklum fjárfestingum sem óhjákvæmilega fylgja hröðum vexti. Þrátt fyrir það hefur skuldsetning þeirra lækkað verulega undanfarið og nálgað það sem tíðkast í öðrum atvinnugreinum. Bætt eiginfjárstaða skapar klárlega betra svigrúm til að takast á við framtíðaráföll í hagkerfinu.

LMF eru hryggjarstykki raunhagkerfisins, jafnt á Íslandi sem og í öðrum löndum. Þau eru einnig drifkraftur sköpunar í gegnum frumkvöðlavirkni og nýsköpun. Öll forgangsröðun sem miðar að því að létta undir með þessum fyrirtækjum, til að mynda þegar kemur að regluverki og eða skattamálum, skilar sér með fullum þunga inn í samfélagið okkar. Það er gott að minna sig á reglulega að lítið getur líka verið stórt.

Höfundur er framkvæmdastjóri Viðskiptabanka Íslandsbanka




Skoðun

Sjá meira


×