Erlent

Fangelsaðir blaðamenn í Myanmar telja lögreglu hafa leitt þá í gildru

Birgir Olgeirsson skrifar
Blaðamennirnir voru dæmdir í fangelsi fyrir að ætla að skaða hagsmuni ríkisins.
Blaðamennirnir voru dæmdir í fangelsi fyrir að ætla að skaða hagsmuni ríkisins. Vísir/EPA
Tveir blaðamenn á vegum fréttaveitunnar Reuters hafa verið dæmdir til sjö ára fangelsisvistar í Myanmar vegna rannsóknar á ofbeldi gegn Róhingjum.

Um er að ræða blaðamennina Wa Lone og Kyaw Soe Oo, ríkisborgara Myanmar, en þeir voru handteknir að hafa undir höndum gögn sem lögreglufulltrúar höfðu afhent þeim.

Þeir hafa haldið fram sakleysi sínu og vilja meina að lögreglan hafi leitt þá í gildru. Hefur málið verið talið prófsteinn á frelsi fjölmiðla í Myanmar.

Mennirnir tveir hafa verið í fangelsi síðan þeir voru handteknir í desember árið 2017. Eru þeir sakaðir um að hafa brotið gegn lögum sem varða ríkisleyndarmál Myanmar.

Dómarinn í málinu mat það svo að mennirnir tveir hefðu haft í hyggju að skaða hagsmuni ríkisins. Þeir höfðu safnað heimildum um aftökur á tíu mönnum í þorpinu Inn Din.

Á meðan rannsókninni stóð höfðu tveir lögreglumenn samband við þá sem vildu veita þeim upplýsingar. Um leið og þeir tóku við gögnunum voru þeir handteknir.

Yfirvöld í Myanmar rannsökuðu ásakanir um þessar aftökur og staðfestu að þær hefðu átt sér stað og hétu því að beita sér gegn þeim sem höfðu fyrirskipað þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×