Erlent

Vill refsa tæknirisum sem berjast ekki gegn barnaníði

Birgir Olgeirsson skrifar
Sajid Javid, innanríksráðherra Breta.
Sajid Javid, innanríksráðherra Breta. Vísir/Getty
Innanríkisráðherra Breta hefur heitið því að beita tæknirisum refsingum ef þeir hjálpa ekki til við að berjast gegn barnaníði á Internetinu.

Ráðherrann heitir Sajid Javid hefur krafist þess að stóru fyrirtækin í tölvugeiranum ráðist í harðari aðgerðir, annars verði þau beitt þvingunum.

Hann benti á að sumir vefir neiti hreinlega að berjast gegn barnaníð og tók sem dæmi að slíkum brotum væri stundum streymt í beinni útsendingu.

Í frétt á vef breska ríkisútvarpsins BBC kemur fram að bæði Google og Microsoft hafi heitið því að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að berjast gegn barnaníði.

„Ég hef verið ánægður með hvernig fyrirtæki á borð við Google, Facebook, Microsoft, Twitter og Apple hafa barist gegn hryðjuverkum. Núna vil ég hins vegar sjá þessi fyrirtæki leggja sig jafn hart fram við að berjast gegn barnaníði,“ er haft eftir Javid.

Hann vildi ekki ræða nánar hvernig hann vill refsa fyrirtækjum fyrir að bregðast ekki við beiðni hans, en sagðist gjarnan vilja sjá þau vinna náið með löggæslustofnunum og stöðva birtingu alls barnaníðsefnis um leið og þau verða vör við það. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×