Erlent

Konur hýddar fyrir að njóta ásta í Malasíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Konurnar tvær voru handteknar í apríl. Trúarlögregla gómaði þær við ástaratlot í bíl við torg.
Konurnar tvær voru handteknar í apríl. Trúarlögregla gómaði þær við ástaratlot í bíl við torg. Vísir/EPA
Yfirvöld í Malasíu létu hýða tvær konur opinberlega eftir að trúarlegur dómstóll dæmdi þær sekur um að hafa stundað kynlíf saman í bíl. Þetta er í fyrsta skipti sem fólk er sakfellt og hýtt vegna samkynhneigðar í Malasíu.

Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC eru konurnar 22 og 32 ára gamlar og múslimar. Þær voru hýddar sex höggum hvor fyrir sjaríadómstól í Terengganu-ríki. Hundrað manns fylgdist með hýðingunni.

Samkynhneigð er ólögleg í Malasíu, bæði samkvæmt trúarlegum og veraldlegum lögum. Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt hýðingu kvennanna harðlega. Hún sé gróft mannréttindabrot. Yfirvöld hafna því hins vegar. Þau segja að hýðingunni sé ekki ætlað að vera „pynting eða meiðandi“ heldur fari hún fram opinberlega til þess að „kenna samfélaginu lexíu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×