Innlent

„Okkur var sagt að við skildum þetta ekki og ættum að þegja“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Nú standa yfir æfingar á leikriti sem byggt er á samskiptum borgaranna við stjórnkerfið, en leikstjóri verksins, Bergur Þór Ingólfsson, var áberandi í umræðunni um uppreist æru Robert Downey.

Um er að ræða gamanverk, en verkið er raunveruleikafarsi um stjórnkerfið og það fólk sem þar starfar. En fyrir árið síðan var leikstjórinn áberandi í umræðunni um uppreist æru, en fjallað var af kappi um málið sem endaði með því að ríkisstjórnin féll.

„Ég ætla ekkert að leyna því en þetta er líka um dómsmálaráðuneytið. Við urðum svo hissa í fyrra í ákveðnu máli þar sem við vorum að þrýsta á stjórnvöld að eiga við okkur samtal. Þá var alltaf snúið út úr og reynt að fara eitthvað annað með þetta. Okkur var sagt að við skildum þetta bara ekki og ættum að þegja,“ segir Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri Svartlyngs en höfundur verksins er Guðmundur Brynjólfsson.

Þó verkið sé pólitísk ádeila er það spreng hlægilegt að sögn Bergs.

„Þetta er sprenghlægilegt gamanverk um fáranleika stjórnkerfisins. Verkið byrjar á því að ráðherra er að auka gagnsæi í landinu og ræður þess vegna til sín gluggaþvottamann. Þannig eykur maður gagnsæi. Við erum eiginlega bara með tárin í augunum af hlátri alla daga,“ segir Bergur.

Verkið verður frumsýnt þann 21. september í Tjarnabíói og hægt er að nálgast miða hér.


Tengdar fréttir

„Gæti verið eitthvað stærra og verra og meira í gangi“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með til skoðunar hvort hefja eigi rannsókn á Robert Downey á grundvelli minnisbókar sem inniheldur 335 nöfn. Faðir stúlku sem brotið var gegn og er nefnd í bókinni segir nauðsynlegt að kanna málið til hlítar.

Fólkið sem felldi ríkisstjórnina: Málinu er ekki lokið

Fjölskylda Nínu Rúnar Bergsdóttur hefur stutt dyggilega við hana frá því snemma í sumar þegar það varð ljóst að Robert Downey hefði hlotið uppreist æru. Þau eru sammála um að málinu sé ekki lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×