Erlent

Hútar skutu eldflaug á Sádi-Arabíu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Vígamenn Húta standa vörð við trúarathöfn í San'a í Jemen.
Vígamenn Húta standa vörð við trúarathöfn í San'a í Jemen. Vísir/AFp
Hútar skutu í gær eldflaug á Sádi-Arabíu. Ekki hefur verið greint frá mannfalli en loftvarnir Sádi-Arabíu skutu eldflaugina niður. Samkvæmt Masirah TV, fréttstöð á bandi Húta, var eldflaug af gerðinni Badr-1 skotið á „nýjar herbúðir“ í borginni Najran.

Sádi-Arabar stýra hernaðarbandalagi nokkurra Arabaríkja til stuðnings forsetanum Abdrabbuh Mansur Hadi. Ríkisstjórn hans hefur átt í stríði við uppreisnarhreyfinguna frá því í mars 2015. Hútar stýra vesturströnd landsins enn og hafa fremstu víglínur lítið breyst undanfarin misseri.

Hernaðarbandalagið, sem nýtur stuðnings Breta og Bandaríkjamanna, og Hútar voru í nýrri skýrslu sérfræðinefndar mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sagðir mögulega bera ábyrgð á stríðsglæpum. Mikið mannfall meðal almennra borgara var harðlega gagnrýnt sem og að komið hefði verið í veg fyrir hjálparstarf í landinu.

Sjá einnig: Sádar hafna ásökunum um stríðsglæpi í Jemen

Þáttur Breta og Bandaríkjamanna er ekki skoðaður. Reuters segir þó að verið sé að fara yfir hann hjá SÞ.

Skýrslan vakti reiði í Bandaríkjunum. Í ritstjórnargrein The New York Times í gær var Bandaríkjastjórn sögð meðsek í því að hafa drepið almenna borgara. Skorað var á þingið að skera á alla hernaðaraðstoð til Sádi-Arabíu.

Jim Mattis varnarmálaráðherra sagði á þriðjudag, daginn sem skýrslan var birt, að stuðningur við Sádi-Araba væri ekki óskilyrtur. Að sögn Reuters ýjaði hann þó að því að Bandaríkin myndu halda áfram stuðningi við bandalagið en vinna að því að lágmarka mannfall almennra borgara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×