Erlent

Hakkarinn sem baðst vægðar dæmdur í átta mánaða fangelsi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bandaríska leikkonan Jennifer Lawrence er ein þeirra sem hakkararnir fjórir brutu á árið 2014.
Bandaríska leikkonan Jennifer Lawrence er ein þeirra sem hakkararnir fjórir brutu á árið 2014. Vísir/getty
Hakkarinn George Garofano, sem braust inn á 240 iCloud-reikninga Hollywood-stjarna og fleira fólks og stal þaðan myndum, var dæmdur í átta mánaða fangelsi á miðvikudag. Greint var frá því fyrr í þessum mánuði að Garofano hafi beðist vægðar í dómsgögnum sem hann skilaði inn vegna málsins.

Garofano, sem er 26 ára, er einn fjögurra karlmanna sem handtekinn var vegna málsins árið 2014. Málið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma þar sem myndir úr einkasafni leikkvennanna Jennifer Lawrence, Kirsten Dunst, Kate Upton og fleiri voru gerðar opinberar á netinu. Myndirnar sýndu margar leikkvennanna naktar og sagði Lawrence á sínum tíma að nektarmyndalekinn væri kynferðisbrot.

Dómur var kveðinn upp yfir Garofano á miðvikudag í borginni Bridgeport í Connecticut-ríki. Saksóknari fór fram á tíu til sextán mánaða fangelsi yfir honum en Garofano bað sjálfur um mildan fangelsisdóm, fimm mánuði að viðbættu fimm mánaða stofufangelsi, í gögnum sem hann skilaði inn til dómsins fyrir um tveimur vikum.

Hann hélt því einnig fram fyrir dómi að hann hefði nú þegar tekið út refsingu fyrir gjörðir sínar og fullyrti að hann hefði bætt ráð sitt síðan myndunum var lekið.

Hinir hakkararnir þrír sem handteknir voru vegna málsins hafa allir hlotið níu til átján mánaða fangelsisdóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×