Erlent

Höfrungur og mörgæsir yfirgefin á sædýrasafni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Höfrungurinn Honey virðist illa haldinn í lítilli laug á safninu.
Höfrungurinn Honey virðist illa haldinn í lítilli laug á safninu. Mynd/Animal Rights Center Japan
Mikil reiði hefur gripið um sig í Japan eftir að í ljós kom að höfrungur, 46 mörgæsir og hundruð fiska hafa þurft að dvelja ein í yfirgefnu sædýrasafni svo mánuðum skiptir. Breska dagblaðið The Guardian greinir frá.

Samtök um dýravelferð í Japan hafa lengi varað við því að dýrin eigi á hættu að drepast verði þeim ekki bjargað úr Inubosaki-sædýrasafninu í bænum Choshi, norðaustan við höfuðborgina Tokyo. Sérstaklega hefur verið einblínt á höfrunginn Honey, sem var skilinn eftir í lítilli laug á safninu. Myndir af höfrunginum sem teknar hafa verið síðustu mánuði sýna að aðstæður á safninu eru afar slæmar og er Honey talin sýna merki um streitu og vanlíðan.

Þá búa mörgæsir í garðinum einnig við þröngan kost, ef marka má mynd sem tekin var af lufsulegum fuglunum innan um steinsteypuklumpa.

Talið er að fyrrverandi starfsmenn sædýrasafnsins haldi lífi í dýrunum og gefi þeim að éta, þó að ekki sé ljóst hvaðan maturinn kemur. Þá hefur baráttufólki í samtökum um dýravelferð verið meinaður aðgangur á safnið síðustu mánuði.

Eins og áður sagði var sædýrasafninu lokað í janúar. Forsvarsmenn sögðu lokunina skrifast á dræma aðsókn í kjölfar náttúruhamfara í norðausturhluta Japan árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×