Handbolti

Dagur vakti sína menn þegar útlitið var svart og þeir náðu í mikilvægt stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Vísir/Getty
Japanska handboltalandsliðið náði að vinna sig út úr erfiðri stöðu í fyrsta leik sínum í milliriðli á Asíuleikunum í handbolta í dag og tryggja sér 26-26 jafntefli við Sádi-Arabíu.

Japanir litu út fyrir að vera jafnvel að kasta frá sér möguleikanum að komast í undanúrslitin um miðjan seinni hálfleik en íslenski þjálfarinn þeirra var ekki á því að gefast upp.

Dagur Sigurðsson þjálfar japanska landsliðið en liðið mátti alls ekki tapa þessum leik. Japan og Sádi-Arabía eru keppa líklegast um það að fylgja Katar í undanúrslitin.

Útlitið var mjög svart fyrir Japan um miðjan seinni hálfleik þegar Japanir voru komnir fimm mörkum undir (21-16). Dagur tók þá leikhlé á góðum tíma og japanska liðið náði að snúa leiknum við og komast í 24-23.

Sádarnir komust aftur tveimur mörkum yfir, 26-24, en aftur náði Japan að jafna eftir gott leikhlé hjá Degi. Hvorugt liðið náði að skora eftir það og jafntefli varð því niðurstaðan.

Katar vann Írak 26-20 fyrr í dag og hafði unnið leiki sína í riðlinum með miklum yfirburðum þar á meðal þann fyrsta á móti Malasíu 64-11.

Katar er með tvö stig en Japan og Sádi-Arabía eitt stig hvort. Markatala um því líklega ráða til um hvort Japan eða Sádi-Arabía komast í undanúrslitin nema ef að Írakar ætli að blanda sér eitthvað inn í baráttuna í næstu leikjum.

Næsti leikur hjá Japan er á móti Írak en á sama tíma spilar Sádi-Arabía við Katar. Japan spilar síðan við Katar í lokaumferðinni á sama tíma og Írakar mæta Sádum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×