Íslenski boltinn

Óli Jóh: Þeir hanga til baka þrátt fyrir að vera með frábært fótboltalið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir á Kópavogsvelli skrifar
Óli Jó ræðir við dómara.
Óli Jó ræðir við dómara. vísir/vilhelm
Íslandsmeistarar Vals sitja á toppi Pepsi deildarinnar í fótbolta eftir 3-1 sigur á Breiðabliki í Kópavoginum í kvöld. Ólafur Jóhannesson var ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld.

„Við þurfum að hafa fyrir öllum leikjum, en það var náttúrulega bara eitt lið inni á vellinum í fyrri hálfleik sem skóp sigurinn,“ sagði Ólafur eftir leikinn.

„Frábær fyrri hálfleikur hjá okkur. Svo var spurningin bara að halda og halda í seinni hálfleik, en jú, jú þeir fengu einhver færi þarna í seinni hálfleik.“

Blikar sóttu nokkuð stíft seinni hluta leiksins og hefðu auðveldlega getað sett fleiri mörk á Valsmenn. Var ekki farið að fara aðeins um Ólaf? „Maður er komin á þennan aldur og verður sjaldan stressaður á hliðarlínunni, bara að njóta þess. En jú, þetta tekur aðeins á.“

En hvernig metur hann leikinn?

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn hjá okkur flottur. Blikarnir þorðu varla að fara fram fyrir miðju, eins og þeir hafa spilað í allt sumar. Hanga til baka og fara í skyndisóknir þrátt fyrir að vera með frábært fótboltalið.“

„Við sprengdum þá nokkrum sinnum upp og skoruðum tvö frábær mörk. Svo vorum við orðnir svolítið þreyttir í restina en það er skiljanlegt.“

Gunnleifur Gunnleifsson og Blikavörnin hafa staðið sig vel í sumar og fengið mjög fá mörk á sig, það gerist ekki oft að hann fái þrjú mörk á sig í leik.

„Hann mætti nú fara að taka þann sið upp núna, ég væri ekkert ósáttur við það,“ sagði léttur Ólafur Jóhannesson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×