Innlent

Listasafnið á Akureyri opnar aftur eftir endurbætur

Andri Eysteinsson skrifar
Glæsilegt húsnæði Listasafnsins á Akureyri verður opnað aftur laugardaginn 25.ágúst.
Glæsilegt húsnæði Listasafnsins á Akureyri verður opnað aftur laugardaginn 25.ágúst. MYND/Listasafnið á Akureyri
Næstkomandi laugardag, 25 ágúst verður Listasafnið á Akureyri opnað að nýju eftir miklar endurbætur og stækkun á húsnæði safnsins.

Í tilkynningu frá safninu kemur fram að sýningarsölum fjölgi um sjö og verði nú tólf talsins. Kaffihús verður opnað og sama gildir um safnabúð.

Framkvæmdirnar hafa staðið yfir í rúmt ár og hefur safnahúsið verið að mestu lokað á meðan unnið er að endurbætunum. Með endurbótunum verða byggingarnar tvær sameinaðar með tengibyggingu.

Kostnaður við endurbæturnar nemur um 700 milljón króna.Sex nýjar sýningar verða opnaðar á laugardaginn.

Enginn aðgangseyrir til og með 2. september

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir mun flytja ávarp sem og Lilja Alfreðsdóttir, Mennta- og menningarmálaráðherra, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri og safnstjórinn Hlynur Hallsson.

Opnunartími á opnunardag verður milli 15:00 til 23:00, enginn aðgangseyrir verður að safninu til og með sunnudagsins 2.september.

Listamennirnir sem opna sýningar í safninu eru þau Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Sigurður Árni Sigurðsson, Hjördís Frímann og Magnús Helgason.

Einnig verða opnaðar sýningar á verkum úr eigu Listasafnsins og Listasafns ASÍ og ljósmyndasýningin Frá Kaupfélagsgili til Listagils.

Um þessar mundir fagnar safnið einnig 25 ára afmæli og verður vikulöng opnunar- og afmælisdagskrá þar sem boðið verður upp á ýmsa skemmtun til að mynda djass tónleika og ljóðalestur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×