Erlent

Forseti Íran vill bjarga samkomulaginu

Samúel Karl Ólason skrifar
Hassan Rouhani, forseti Íran.
Hassan Rouhani, forseti Íran. Vísir/EPA
Hassan Rouhani, forseti Íran, kallaði í dag eftir því að þjóðir sem skrifuðu undir kjarnorkusamkomulagið héldu því gangandi. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sleit Bandaríkin frá samkomulaginu fyrr á árinu.

Samkomulagið var gert á milli Íran, Bandaríkjanna, Kína, Rússlands, Bretlands, Frakklands og Þýskalands og var því ætlað að binda enda á kjarnorkuvopnaáætlun Íran. Í skiptum fyrir að þvingunum og öðrum refsiaðgerðum yrði aflétt samþykktu yfirvöld Íran að hætta við þróun kjarnorkuvopna í minnst tíu ár og hleypa eftirlitsaðilum í landið.

Rouhani ræddi við Emmanuel Macron, forseta Frakklands, fyrr í dag og sagðist hann vilja að þau Evrópuríki sem koma að samkomulaginu tryggðu Íran aðgang að bankaþjónustu og tryggðu að Íran gæti selt olíu áfram.

Ríkismiðill Íran hefur eftir Rouhani að hann hafi sagt Macron að Íranir hafi fylgt samkomulaginu að fullu og hann ætlaðist til þess að það væri áfram gilt.



Bandaríkin hafa beitt Íran viðskiptaþvingunum að nýju og hefur efnahagur Íran farið versnandi síðan Trump dró Bandaríkin frá samkomulaginu.

Íranir hafa síðan þá hótað að grípa til hernaðaraðgerða í Persaflóa og koma í veg fyrir að önnur ríki svæðisins, Írak og Sádi-Arabía, geti flutt olíu sína úr landi þá leið.



Yfirmaður sjóhers Íran sagði í dag að Íran stjórnaði Hormuz sundi að fullu og Bandaríkin ættu að flytja flota sinn frá Persaflóa.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, svaraði á Twitter í kvöld og sagði Íran ekki eiga rétt á sundinu. Það væri alþjóðlegt hafsvæði og Bandaríkin myndu starfa með bandamönnum sínum í að tryggja frjálsar siglingar um svæðið.


Tengdar fréttir

Refsiaðgerðir gegn Íran taka gildi í nótt

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að hann hyggst fylgja eftir refsiaðgerðum gegn Íran, eftir að Bandaríkin drógu sig úr alþjóðlegu kjarnorkusamkomulagi í vor sem undirritað var árið 2015 en það var í stjórnartíð Baracks Obama.

Trump sendi Íran tóninn í hástöfum

Forseti Bandaríkjanna brást ókvæða við ræðu íranska starfsbróður síns, Hassan Rouhani, sem sá síðarnefndi flutti í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×