Richarlison tryggði tíu mönnum Everton stig

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Richarlison skorar seinna mark sitt í dag
Richarlison skorar seinna mark sitt í dag Vísir/Getty
Richarlison skoraði tvö mörk í fyrsta leik sínum fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni í dag. Tíu menn Everton sóttu eitt stig gegn nýliðum Wolverhampton Wanderers.

Dagurinn byrjaði mjög vel fyrir gestina frá Everton. Nýi maðurinn Richarlison stimplaði sig inn með marki strax á 17. mínútu eftir aukaspyrnu Leighton Baines.

Allt leit út fyrir að Everton færi með þægilega 1-0 forystu inn í hálfleikinn þegar Phil Jagielka, einn reyndasti maður Everton, fór í tæklingu með takkana á lofti og var sýnt beint rautt spjald.

Ruben Neves, sem fór á kostum með Wolves síðasta vetur, tók aukaspyrnuna og gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr henni með laglegu skoti. Jordan Pickford náði að koma hendi í boltann en gat ekki haldið honum úti.

Everton lá nokkuð til baka í seinni hálfleik, enda manni færri. Gestirnir náðu þó skyndisókn á 67. mínútu og komust yfir með laglegu skoti frá Richarlison.

Neves vildi ekki láta frábært mark sitt fara forgörðum svo hann sendi boltann inn á teig Everton, fann kollinn á Raul Jimenez sem jafnaði leikinn á 80. mínútu.

Hvorugt lið náði að setja sigurmarkið inn og 2-2 jafntefli niðurstaðan í fyrsta leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið.

Gylfi Þór Sigurðsson byrjaði leikinn á miðjunni hjá Everton. Hann var hins vegar tekinn af velli þegar Jagielka var rekinn út af og Marco Silva neyddist til þess að endurskipuleggja lið sitt.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira