Liverpool byrjaði af krafti og fer á toppinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mane skoraði tvö mörk í dag
Mane skoraði tvö mörk í dag Vísir/Getty
Liverpool átti ekki í teljandi vandræðum með West Ham í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni á nýju tímabili.

Strax frá fyrstu mínútu var Liverpool með öll völd á vellinum. Eftir að hafa ógnað marki West Ham aðeins kom fyrsta markið á 19. mínútu. Það var markakóngur síðasta tímabils, Mohamed Salah, sem skoraði markið.

Yfirburðir Liverpool áttu bara eftir að aukast en þeir náðu samt ekki að setja annað mark fyrr en undir lok fyrri hálfleiksins. Varnarmenn West Ham sofnuðu á verðinum og Sadio Mane skoraði í opið markið eftir sendingu James Milner.

Mane gekk svo frá leiknum í upphafi seinni hálfleiks. Roberto Firmino gerði vel í að finna Mane á teignum og aftur var varnarleikur West Ham í molum. Endursýningar sýndu að Mane var rangstæður en það var ekki dæmt og engin myndbandsdómgæsla er í ensku úrvalsdeildinni svo markið stendur.

West Ham komst nokkrum sinnum í ágætar sóknir þegar leið á leikinn en náði þó ekki að gera sér mat úr þeim. Í staðinn negldi Daniel Sturridge síðasta naglann í kistuna aðeins nokkrum sekúndum eftir að hann kom inn á sem varamaður með merki upp úr hornspyrnu. Lokatölur urðu 4-0 á Anfield.

Liverpool fer á toppinn á markatölu þegar fyrstu umferðinni er nærri lokið, aðeins leikur Arsenal og Manchester City óleikinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira