Enski boltinn

Silva um rauða spjaldið: Þetta var ekki brot

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Silva var ekki sáttur
Silva var ekki sáttur Vísir/Getty
Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton, sagði Phil Jagielka ekki hafa brotið af sér þega honum var sýnt rauða spjaldið í leik Everton og Wolves í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Jagielka fékk beint rautt spjald fyrir brot á Diego Jota undir lok fyrri hálfleiks í leiknum á Molineux vellinum í Wolverhampton.

Dómari leiksins, Craig Pawson, gaf út eftir leikinn að rauða spjaldið hafi verið vegna þess að Jagielka rændi Jota af upplögðu marktækifæri. Hann sagði þó að brotið sjálft hefði líka getað verðskuldað spjaldið.

„Þetta er ströng ákvörðun. Það er ekki að sjá neitt brot, við fáum rautt spjald og þeir skora úr aukaspyrnunni,“ sagði Silva eftir leikinn. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli eftir að Everton hafði tvisvar komist yfir.

„Hann dæmdi ekkert í fyrstu en eftir tvær sekúndur þá snéri hann við og gaf rauða spjaldið. En þetta er staðan og við þurfum að sætta okkur við þessa ákvörðun.“

Silva tók Gylfa Þór Sigurðsson út af þegar rauða spjaldið fór á loft til þess að breyta leiksskipulagi sínu.

„Það þarf að leggja liðið upp öðruvísi þegar maður er bara með 10 menn. Við vorum mjög skipulagðir í seinni hálfleiknum. Það mátti búast við því að þeir væru meira með boltann en við áttum hættulegri færi,“ sagði Marco Silva.


Tengdar fréttir

Richarlison tryggði tíu mönnum Everton stig

Richarlison skoraði tvö mörk í fyrsta leik sínum fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni í dag. Tíu menn Everton sóttu eitt stig gegn nýliðum Wolverhampton Wanderers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×