Erlent

Fjallaljón braust inn og át kött

Andri Eysteinsson skrifar
Nokkuð algengt er að fjallaljón leiti í mannabyggðir, þó er ekki algengt að finna þau í stofunni heima hjá sér.
Nokkuð algengt er að fjallaljón leiti í mannabyggðir, þó er ekki algengt að finna þau í stofunni heima hjá sér. Vísir/Getty
Herbergisfélagar í bænum Boulder í Colorado fengu heldur óvænta heimsókn á dögunum.

Annar herbergisfélagana, Kayla Slaugther segir í samtali við staðarfjölmiðilinn WIVB að herbergisfélagi sinn hafi komið heim um hálf ellefu síðastliðinn fimmtudag og rekist þar á fjallaljón sem hafði komið sér fyrir í stofunni.

Talið er að rándýrið hafi laumað sér inn um opinn glugga, enginn húsráðanda var heima en kötturinn Klondike var fastur inni í íbúðinni með fjallaljóninu.

Herbergisfélaginn sem kom fyrst að flúði íbúðina og hringdi á lögreglu. Á meðan að hann beið eftir aðstoð tók hann eftir því að Klondike hafði orðið fjallaljóninu að bráð.

Lögregla átti í töluverðum vandræðum með að koma dýrinu út og tóku aðgerðirnar nokkra klukkutíma en að endingu gekk fjallaljónið út um dyrnar, niður götuna og út í náttúruna aftur.

Nágranni Slaugther, Jesse Frankel sagði í viðtali við KDVR að þetta hafi verið ótrúlegt, eins og að vera í dýragarði nema bara inni í húsi.

Slaugther segir að atvikið hafi kennt sér að mikilvægt sé að loka og læsa öllum hurðum og gluggum áður en farið er út.

Lögreglan tekur undir þetta og segir að þetta sé besta leiðin til að forðast ekki bara fjallaljón heldur líka birni og innbrotsþjófa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×