Erlent

Dræm mæting hvítra þjóðernissinna í Washington

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jason Kessler. skipuleggjandi göngunnar.
Jason Kessler. skipuleggjandi göngunnar. Vísir/Getty
Hópur hvítra þjóðernissinna var öllu minni en búist var við í göngu undir slagorðinu „Sameinum hægrið“ í Washington-borg í Bandaríkjunum í dag. Efnt var til göngunnar á eins árs afmæli óeirðanna í Charlottesville í Virginíuríki.

Sjá einnig: Hvítir þjóðernissinnar ganga aftur ári eftir Charlottesville

Fundur öfgamannanna í Washington í dag var kynntur sem framhald fundarins sem haldinn var í Charlottesville í fyrra. Hópurinn safnaðist saman við Lafayette-torgið á móti Hvíta húsinu klukkan 17:30 að staðartíma í dag með skipuleggjanda göngunnar, Jason Kessler, í fararbroddi. Hann sagði dræma mætingu skrifast á aðra öfahægrimenn, sem væru of hræddir til að láta sjá sig í Washington undir merkjum göngunnar.

Gagnmótmælendur voru miklu fleiri en hvítir þjóðernissinnar í Washington í dag.Vísir/Getty
Samkvæmt frétt Buzzfeed News er áætlað að hópur hvítra þjóðernissinna hafi aðeins talið um 20 manns. Myndbönd af vettvangi, eitt sem tekið er inni í rútu og annað sem sýnir yfirlit af mannfjöldanum í Washington í dag, renna stoðum undir þær talningar.

Þá er ljóst að gagnmótmælendur, sem skiptu hundruðum, voru töluvert fleiri en þjóðernissinnarnir. Margir úr hópi þeirra fyrrnefndu hrópuðu „Farið heim, nasistar!“ og „Skammist ykkar!“ að öfgamönnunum og þá voru fánar bæði nasista og Suðurríkjasambandsins brenndir til kaldra kola.

Fundur hópa hægriöfgamanna í Charlottesville í fyrra, þar sem söfnuðust saman hvítir þjóðernissinnar, Ku Klux Klan-liðar og nýnasistar, vakti mikla reiði í Bandaríkjunum á sínum tíma. Þeir gengu meðal annars fylktu liði með kyndla á lofti og hrópuðu slagorð gegn gyðingum kvöldið fyrir formlega samkomu þeirra. Donald Trump Bandaríkjaforseti var harðlega gagnrýndur fyrir viðbrögð sín í kjölfar göngunnar en hann fordæmdi hvers kyns kynþáttahatur á Twitter-reikningi sínum í gær, degi fyrir aðra atrennu hvítra þjóðernissinna í Washington.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×