Erlent

Fyrsti fanginn tekinn af lífi með lyfjum í Nebraska

Samúel Karl Ólason skrifar
Carey Dean Moore var tekinn af lífi í dag eftir að hafa verið dæmdur til dauða árið 1979.
Carey Dean Moore var tekinn af lífi í dag eftir að hafa verið dæmdur til dauða árið 1979. Vísir/AP
Dauðadómi yfir Carey Dean Moore var framfylgt í Nebraska í dag og var til þess notuð áður óreynd blanda af lyfjum. Þetta er fyrsta aftakan með lyfjum í Nebraska. Síðasta aftakan í ríkinu fór fram árið 1997 þegar hinn dauðadæmdi var tekinn af lífi í rafmagnsstól.

Lyfjablandan áðurnefnda innihélt meðal annars lyfið fentanyl og segja vitni af aftökunni að svo virðist sem hún hafi gengið hnökralaust, ef svo má að orði komast.

Moore var dæmdur til dauða árið 1979 fyrir að myrða tvo leigubílstjóra. Yfirvöld Nebraska felldu þó niður dauðadóma fyrir rúmum þremur árum. Dauðadómar voru þó teknir upp aftur ári seinna í atkvæðagreiðslu íbúa ríkisins.

Frá því hann var dæmdur hefur sjö sinnum staðið til að taka hann af lífi. Því hefur þó alltaf verið frestað vegna áfrýjana, annarra dómsmála og spurninga um hvort lyf sem átti að nota hafi verið fengin með löglegum hætti.

Þýskt lyfjafyrirtæki reyndi að koma í veg fyrir aftökuna í síðustu viku. Í lögsókn hélt fyrirtækið Fresenius Kabi því fram að Nebraska hefði öðlast lyf fyrirtækisins með ólöglegum hætti. Forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu að aftakan myndi koma niður á orðspori þess og viðskiptasamböndum.

Alríkisdómari sem skoðaði málið var þó ósammála. Hann sagði lögmæta hagsmuni ríkisins vega meira en áhyggjur fyrirtækisins og tók einnig fram að Moore væri hættur að berjast gegn dauðadómnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×