Innlent

Telur brýnt að skólayfirvöld taki tillit til óska nemenda um skráð nöfn

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Skólameistari Menntaskólans við Sund hyggst ekki breyta nafni nemanda sem stendur í kynleiðréttinga í gögnum skólans á meðan annað nafn er skráð í Þjóðskrá, en hann telur slíkt brjóta í bága við lög. Ráðherra telur brýnt að skólayfirvöld taki tillit til óska nemenda um skráð nöfn.

Fjallað hefur verið um mál nemanda Menntaskólans við Sund sem stendur í kynleiðréttingarferli en hann bíður nú eftir að Þjóðskrá taki nafnabreytingunni gildri. Á meðan telur skólastjórinn ekki unnt að breyta nafni hans í gögnum skólans.

Í 19.gr laga um mannanöfn kemur fram að á öllum opinberum skrám og öðrum opinberum gögnum skulu nöfn manna rituð eins og þau eru skráð í Þjóðskrá á hverjum tíma.

Því kemur til álita hvort að gögn skólans, líkt og nafnalistar og prófskírteini séu opinber gögn.

Menntaskólinn við Sund telur að svo sé og neitar því að breyta gögnum nemandans. Fréttastofa náði tali af skólameistara í dag en hann neitaði að veita viðtal vegna málsins.

Kvennaskólinn í Reykjavík er MS ósammála en þar þótti lítið mál að breyta nafni nemanda sem stendur í kynleiðréttingarferli þannig að kvenmannsnafn hans birtist ekki í gögnum.

Menntamálaráðherra segir brýnt að skólayfirvöld taki óskir nemenda til sín.

„Við höfum fengið svona mál inn á borð til okkar. Það mál var leyst á milli viðkomandi skóla og nemandans á farsælan hátt. Mér finnst mjög brýnt að skólayfirvöld taki tillit til óska þessara nemenda vegna þess að þeir eru í ákveðnu ferli. Aðrir skólar hafa gert það og hefur það verið farsælt samstarf á milli nemandans og skólamálayfirvalda. Nafn er eitt það persónulegasta sem við eigum þannig ég skil það vel þegar viðkomandi aðili geri athugasemdir við þetta,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Í gögnum sem Skólastjóri Menntaskólans við Sund afhenti fréttastofu kemur fram að hann telji það varla á valdsviði einkafyrirtækis, líkt og INNU - upplýsingakerfi framhaldsskólanna, sem tekur að sér að hýsa og þróa ákveðinn hugbúnað að leggja sínar eigin línur varðandi túlkun og framkvæmd laga.

Foreldrar nemandans, sem stundar nám við Menntaskólann við Sund, tilkynntu ákvörðun skólameistarans til Menntamálaráðuneytisins. En í bréfi ráðuneytis til foreldra hans kemur fram að ákvörðun skólameistarans sé ekki ákvörðun um réttindi og skyldur einstaklings í skilningi stjórnsýslulaga. Heldur sé um að ræða ákvörðun sem lúti að framkvæmd þjónustu. Þar af leiðandi sé ákvörðunin ekki kæranleg til ráðuneytisins.

Engu að síður ætli ráðuneytið að taka málið til athugunar. Hyggst ráðuneytið leita umsagnar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og skólameistarafélagi Íslands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×