Erlent

Forseti Malí endurkjörinn með ríflegum meirihluta atkvæða

Kjartan Kjartansson skrifar
Keita hefur nú annað fimm ára kjörtímabil.
Keita hefur nú annað fimm ára kjörtímabil. Vísir/EPA
Ibrahim Boubacar Keita, sitjandi forseti Malí, var endurkjörinn með 67% atkvæða í seinni umferð forsetakosninganna þar. Stjórnarandstaðan í landinu hefur fullyrt að brögð hafi verið í tafli og ofbeldi setti svip sinn á kosningarnar.

Reuters-fréttastofan segir að hótanir herskárra íslamista hafi valdið því að um 500 kjörstöðum var lokað á sunnudag. Einn starfsmaður kjörstjórnar var drepinn í Niafunke í Timbúktúhéraði. Hópar íslamista og aðskilnaðarsinna í miðju og norðanverðu Malí eru sagðir hafa fjölgað árásum sínum í aðdraganda kosninganna.

Kjörsóknin í kosningunum var aðeins 34%. Soumaila Cisse, frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, sakar framboð Keita um að hafa breytt kjörskrám og troðið fölsuðum atkvæðum í kjörkassa. Keita hafnar þeim ásökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×