Erlent

Hakkari biðst vægðar

Atli Ísleifsson skrifar
Leikkonan Jennifer Lawrence var ein þeirra sem varð fyrir barðinu á manninum.
Leikkonan Jennifer Lawrence var ein þeirra sem varð fyrir barðinu á manninum. Vísir/Getty
Karlmaður frá Connecticut í Bandaríkjunum hefur beðist vægðar nú þegar hann bíður dóms eftir að hafa brotist inn á 250 iCloud-reikninga Hollywood-stjarna og fleira fólks og stolið þaðan myndum.

AP greinir frá því að George Garofano frá bænum North Branford hafi verið einn fjögurra sem var handtekinn vegna málsins árið 2014. Málið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma þar sem myndir úr einkasafni leikkvennanna Jennifer Lawrence, Kirsten Dunst, Kate Upton og fleiri voru gerðar opinberar á netinu.

Dómur yfir Garofano verður kveðinn upp í Bridgeport þann 29. ágúst næstkomandi.

Garofano skilaði nýverið inn gögnum til dómsins þar sem hann baðst vægðar og bað um að verða ekki dæmdur í meira en fimm mánaða fangelsi og fimm mánaða stofufangelsi í framhaldi af því. Það yrði vægari dómur en sú tíu til sextán mánaða fangelsisvist sem hann á yfir höfði sér eftir að hafa játað brot sín í apríl síðastliðinn.

Garofano segist sjá fram á skert réttindi það sem eftir lifi ævinnar og að hann hafi nú þegar tekið út refsingu síðan hann var handtekinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×