Fótbolti

Allbäck um Ísland: Þetta er ekki rétt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Allbäck fagnar á dögum sínum sem aðstoðarþjálfari sænska landsliðsins.
Marcus Allbäck fagnar á dögum sínum sem aðstoðarþjálfari sænska landsliðsins. Vísir/Getty
Marcus Allbäck var aðstoðarþjálfari Erik Hamrén hjá sænska landsliðinu á sínum tíma en hann neitar því að fylgi með í kaupunum taki Hamrén við íslenska landsliðinu.

Fótbolti.net sagði fyrst frá viðræðum Erik Hamrén og KSÍ í gær og þar fylgdi sögunni að Allbäck myndi aðstoða Hamrén eins og hjá sænska landsliðinu.

„Það er ekki rétt,“ sagði Marcus Allbäck við Fotbollskanalen.

Erik Hamrén hætti með sænska landsliðið eftir EM 2016 og hefur síðan starfað sem framkvæmdastjóri hjá Mamelodi Sundowns í Suður-Afríku. Marcus Allbäck gerðist aftur á móti umboðsmaður fótboltamanna.

„Ég er að vinna í öðru núna og þetta passar því ekki,“ sagði Allbäck og bætti við:

„Þeir hafa ekki heyrt í mér né spurt hvort ég vilji taka þetta að mér. Ég hef verið í umboðsmennskunni í tvö ár og hef mjög gaman af því,“ sagði Allbäck.

En veit hann eitthvað um viðræður Erik Hamrén og KSÍ?

„Já ég veit að Erik er einn af þeim sem þeir eru að tala við. Ég get staðfest það,“  sagði Marcus Allbäck við Fotbollskanalen.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×