Innlent

Ók á ferðamenn í Borgarnesi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ölvaður ökumaður ók á tvo ferðamenn í Borgarnesi í morgun.
Ölvaður ökumaður ók á tvo ferðamenn í Borgarnesi í morgun. Vísir/Vilhelm
Lögreglan í Borgarnesi handtók á tíunda tímanum í morgun ökumann sem var ölvaður undir stýri, missti stjórn á jeppa á Brúartorgi og ók á tvo erlenda ferðamenn á fertugsaldri að því er RÚV greinir frá.

RÚV hefur eftir Sigurði Jónassyni hjá Lögreglunni í Borgarnesi að fólkið sem varð fyrir bílnum hefði þurft að leita á spítala til aðhlynningar og bætir við að sauma þurfti annað þeirra.

Eftir að hafa keyrt á fólkið á maðurinn að hafa gengið í burtu frá vettvangi en vegfarendur veittu honum eftirför. Maðurinn var síðan handtekinn.

Sjálfur ökumaðurinn slapp ómeiddur en jeppinn er óökufær. Maðurinn á að hafa ekið niður ljósastaur og á steinkant sem brotnaði þegar hann missti stjórn á bílnum.

Maðurinn var ekki í ástandi til að hægt yrði að yfirheyra hann og verður hann því boðaður í skýrslutöku þegar runnið verður af honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×