Innlent

Sveitarfélög misvel í stakk búinn til þess að bregðast við fari rafmagn af í langan tíma

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Ástæða er til að taka upp umræðu um afhendingaröryggi á landsvísu í kjölfar rafmagnsleysisins í Hveragerði en sveitarfélög eru misvel í stakk búinn til þess að bregðast við fari rafmagn af í langan tíma. Upplýsingafulltrúi Samorku segir aðstæðurnar í Hveragerði í gær sýna hversu háð rafmagni mannfólkið er.

Langvarandi rafmagnsleysi eins og varð í Hveragerði í gær og fram á nótt hefur vakið upp spurningar um hvernig önnur sveitarfélög eru í stakk búin að takast á við slíkt ástand en í mörgum bæjarfélögum er viðkvæm þjónusta algjörlega háð rafmagni.

Upplýsingafulltrúi Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja á Íslandi segir rafmagnsleysið ástæðu til þess að málið sé tekið til umræðu.

„Þessi bilun í Hveragerði er staðbundin bilun í dreifiveitu. Almennt séð sitja sveitarfélögin á landinu við sama borð þegar kemur að svona bilun,“ segir Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.

Lovísa segir að bæjar- og sveitarfélög leggi allt sitt traust á flutnings- og dreifikerfið og að sem betur fer sé svona alvarleg bilun fátíð.

„Fyrirtæki eru með mjög misviðkvæma starfsemi innan sveitarfélaganna þannig að þetta er kannski gott tækifæri fyrir þau að huga að hvort þau vilji hafa varaafl eins og heilsugæslan og fleira.

Langvarandi rafmagnsleysi getur komi illa niður á viðkvæmri starfsemi sér í lagi ef það er langt í þjónustu annars staðar.

„Þetta er misvel í pottinn búið á landinu eins og við vitum og þetta gefur tilefni til að ræða þau mál mjög vel,“ segir Lovísa.

Lovísa segir að rafmagnsöryggi sé heilt yfir mjög gott á Íslandi samanborið við önnur lönd en að alltaf sé ástæða til þess að ræða rafmagnsöryggi. Lovísa telur ástæðu til þess að kanna hvort ástæða sé til þess að þétta net varaaflstöðva hringinn í kringum landið, líkt og þær sem fengnar voru til Hveragerðis í nótt.

„Svona bilanir geta alltaf komið upp, en sem betur fer gerist það mjög sjaldan en það má alltaf ræða það hvort það þurfi að byggja upp betra net. Við búum við mjög gott rafmagnsöryggi hér á landi í samanburði við önnur lönd en þetta gefur tilefni til þess að ræða, hvað ef?“ segir Lovísa.

Rafmagnsleysið í Hveragerði í nótt sýndi svart á hvítu hvers háð rafmagni mannfólkið er.

„Algjörlega, það er miðlægt í allri okkar grunnþjónustu og við gerum voðalega lítið án rafmagns og þá sjaldan að það gerist að við missum rafmagnið að þá finnum við fyrst fyrir því,“ segir Lovísa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×