Enski boltinn

Alisson fimmti dýrastur en United á fjóra af tíu efstu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rétt, Alisson. Fimmti dýrastur í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.
Rétt, Alisson. Fimmti dýrastur í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. vísir/getty
Liverpool gekk í gær frá kaupum á brasilíska markverðinum Alisson Becker frá Roma en félagið borgar fyrir hann 67 milljónir punda.

Hann er dýrasti markvörður sögunnar og því augljóslega dýrasti markvörður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en Liverpool er nú á rúmu hálfu ári búið að kaupa dýrasta markvörðinn og dýrasta varnarmann sögunnar í Virgil van Dijk.

Dýrasti markvörður sögunnar er engu að síður „bara“ í fimmta sæti yfir dýrustu leikmenn sögunnar í ensku úrvalsdeildinni en Sky Sports birtir í dag lista yfir þá tíu sem kostað hafa mest til að setja kaupin á Brassanum í samhengi.

Manchester United hefur um langa hríð verið ríkasta félag Englands og listinn endurspeglar það. United á fjóra af tíu dýrustu leikmönnum sögunnar en þrír þeirra eru enn þá í liðinu.

Paul Pogba kostaði skildinginn.Vísir/Getty

Pogba trónir á toppnum

Paul Pogba er sá dýrasti í sögu úrvalsdeildarinnar en United borgað 93,25 milljónir punda þegar að að keypti Frakkann aftur frá Juventus fyrir tveimur árum.

Manchester United ber einnig ábyrgð á næst dýrustu kaupunum ásamt Liverpool en Romelu Lukaku, sem gekk í raðir United síðasta sumar, og umræddur Virgil Van Dijk kostuðu báðir 75 milljónir punda.

Í fjórða sæti er svo spænski framherjinn Álvaro Morata sem kostaði Chelsea 70 milljónir punda þegar að hann kom frá Real Madrid og Alisson Becker er svo fimmti eins og áður segir.

Brasilíumaðurinn Fred er í sjötta sætinu en United keypti hann fyrir 61,2 milljónir punda frá Shakhtar Donetsk í sumar. Pierre-Emerick Aubameyang (Dortmund til Arsenal) og Riyad Mahrez (Leicester til Manchester City) eru svo saman í 7.-8. sætinu en báðir kostuðu 60 milljónir punda.

Virgil Van Dijk er dýrasti varnarmaður sögunnar.vísir/getty

De Bruyne rétt fyrir utan

Eini leikmaður United á listanum sem er ekki enn þá í leikmannahópnum er Argentínumaðurinn Ángel di María sem United keypti árið 2014 fyrir 59,7 milljónir punda en hann entist aðeins eina leiktíð og var seldur til PSG fyrir 44,3 milljónir punda ári síðar.

Manchester City á svo leikmennina í tíunda og ellefta sæti en það eru Aymeric Laporte sem kostaði 57 milljónir punda og Kevin De Bruyne sem City borgaði Wolfsburg 54,5 milljónir punda fyrir þegar að hann gekk í raðir félagsins.

Tíu dýrustu leikmennirnir í sögu ensku úrvalsdeildarinnar:

1. Paul Pogba til Man. Utd frá Juventus - 93.25 milljónir punda

2.-3. Romelu Lukaku til Man. Utd frá Everton - 75 milljónir

2.-3. Virgil van Dijk til Liverpool frá Southampton - 75 milljónir

4. Álvaro Morata til Chelsea frá Real Madrid - 70 milljónir

5. Alisson Becker til Liverpool frá Roma - 67 milljónir punda

6. Fred til Man. Utd frá Shakhtar - 61,2 milljónir

7.-8. Riyah Mahrez til Man. City frá Leicester - 60 milljónir

7.-8. Pierre-Emerick Aubameyang til Arsenal frá Dortmund - 60 milljónir

9. Ángel di María - 59.7 milljónir til United frá Real Madrid

10. Aaymeric Laporte til Man. City frá Athletic - 57 milljónir


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×