Erlent

Ætla að gefa bændum tólf milljarða

Samúel Karl Ólason skrifar
Í gær hélt Trump ræðu í Missouri þar sem hann biðlaði til bænda og bað þá um að sýna þolinmæði.
Í gær hélt Trump ræðu í Missouri þar sem hann biðlaði til bænda og bað þá um að sýna þolinmæði. Vísir/AP
Ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, tilkynnti í gærkvöldi að til stæði að setja upp tólf milljarða dala neyðarsjóð til aðstoðar bænda sem komið hafa illa út úr viðskiptadeilum Bandaríkjanna og annarra ríkja eins og Kína og Mexíkó. Þá sakar Trump Kína um að herja á bandaríska bændur með því markmiði að beita Trump þrýstingi.

Verulega hefur dregið úr útflutningi landbúnaðarafurða frá Bandaríkjunum eftir að ríki settu tolla á slíkar vörur í kjölfar tolla Trump á stál og ál.

Forsetinn gagnrýndi einnig þá þingmenn sem hafa hvatt hann til að láta af umræddum tollum og stilla til friðar í viðskiptadeilum Bandaríkjanna. Hann sagði þá „auma“ og segir að þeir geri samningaviðræður erfiðar.

Starfsmenn Hvíta hússins segjast vonast til þess að greiðslur berist til bænda í september og á sama tíma vonast þeir til þess að hagsmunasamtök bænda og þingmenn innan Repúblikanaflokksins láti af gagnrýni sinni á tollanna. Þeir segja tollana koma verulega niður á bændum og á flokknum í aðdraganda þingkosninga í nóvember.



Í gær hélt Trump ræðu í Missouri þar sem hann biðlaði til bænda og bað þá um að sýna þolinmæði. Hann sagði að á endanum yrðu bændur þeir sem myndu græða mest á stefnumálum hans.

Repúblikanar hafa þó einnig gagnrýnt stofnun neyðarsjóðsins og segja Trump eiga frekar að hjálpa bændum með því að opna á nýja markaði erlendis í stað þess að ríkið þurfi að greiða þeim. Þingmaðurinn Rand Paul sagði að ef tollarnir væru að koma niður á tekjum bænda væri rétta leiðin ekki að bjóða þeim ölmusu. Rétt væri að fella tollana niður.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×