Fótbolti

Forseti Roma mun ekki fyrirgefa Barcelona nema þeir gefi honum Messi

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Malcom er hæstánægður með vistaskiptin til Barcelona
Malcom er hæstánægður með vistaskiptin til Barcelona vísir/getty
Brasilíumaðurinn Malcom gekk í raðir Barcelona síðastliðinn miðvikudag eftir að hafa verið á leiðinni til Rómar að skrifa undir samning við AS Roma á mánudagskvöld.

Ítalska liðið hafði náð samkomulagi við Bordeaux og var til að mynda búið að tilkynna um það inn á heimasíðu franska félagsins. 

Á síðustu stundu blandaði Barcelona sér í baráttuna sem varð til þess að Malcom hætti við að stíga upp í flugvél til Rómar og hélt þess í stað til Barcelona nokkrum klukkustundum síðar.

James Pallotta, forseti Roma, sendir Barcelona kaldar kveðjur og segir vinnubrögð spænska stórveldisins vera til skammar.

„Þeir vissu að þetta væri frágengið og þeir höfðu meira að segja samband við okkur til að biðjast afsökunar á því hvernig þeir fóru að þessu,“ segir Pallotta.

„Ég tek ekki þessari afsökunarbeiðni. Það er tvennt sem þeir geta gert fyrir okkur; þeir gætu sent Malcom til okkar, og það er ekki að fara gerast, eða þeir gætu látið okkur hafa Lionel Messi frítt.“

„Það var búið að ganga frá kaupunum og samkomulagið var í höfn. Þá koma ekki önnur félög líkt og Barcelona gerði. Bordeaux átti aldrei að samþykkja slík vinnubrögð. Ég tel þetta ólöglegt en fyrst og fremst siðlaust.“

„Ef þú skoðar hvernig Barcelona hefur hagað sér á leikmannamarkaðnum á undanförnum árum þá sæmir það ekki félagi eins og Barcelona,“ sagði Pallotta í útvarpsviðtali þar sem hann fór ítarlega yfir atburðarás undanfarinna daga.

Smelltu hér til að sjá viðtalið við Pallotta í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×