Fótbolti

Lineker ætlar að koma fram í Borat-skýlunni ef England verður heimsmeistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Lineker og Borat í skýlunni.
Gary Lineker og Borat í skýlunni. Vísir/Samsett/Getty
Sjónvarpsmaðurinn og knattspyrnugoðsögnin Gary Lineker ætlar að bjóða upp á sannkallað „tískuslys“ í beinni útsendingu á þættinum Match of the Day á BBC. Til að svo verði þá þurfa landar hans í enska landsliðinu að tryggja sér heimsmeistaratitilinn á sunnudaginn.

Enska landsliðið hefur staðið sig frábærlega á HM í Rússlandi og betur en flestir bjuggust við. Þar á meðal er einn helsti knattspyrnuspekingur ensku þjóðarinnar.

Það vakti athygli þegar Gary Lineker lofaði og stóð við að kynna þáttinn sinn á nærbuxunum ef Leicester City yrði Englandsmeistari.

Gary Lineker var lykilmaður hjá enska fótboltalandsliðinu þegar liðið komst í undanúrslit HM fyrir 28 árum síðan. Nú hefur hann gefið athyglisvert loforð fari enska liðið alla leið á HM í Rússlandi.

Enska landsliðið mætir Króatíu í undanúrslitaleiknum annað kvöld en liðið komst síðast svona langt á HM í Ítalíu 1990.

Þá skoraði Gary Lineker mark Englendinga í 1-1 jafntefli á móti Þýskalandi en Þjóðverjar unnu í vítakeppni. Lineker skoraði úr sinni vítaspyrnu en Stuart Pearce og Chris Waddle klikkuðu á tveimur síðustu spyrnum enska landsliðsins.

Félagar Lineker hjá BBC minntu sinn mann á loforðið á Twitter í dag. Gary Lineker lofaði því nefnilega fyrir heimsmeistarakeppnina í Rússlandi að hann myndi kynna þáttinn sinn MOTD í Mankini-sundskýlu ef Englendingar yrðu heimsmeistarar.





Mankini-sundskýlan er oftast kölluð Borat-skýlan en hver man ekki eftir þegar leikarinn Sacha Baron Cohen klæddist henni í grínmyndinni „Borat! Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan“ sem kom út árið 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×