Erlent

Sagt að andlát eiginkonu væri brot á notendaskilmálum PayPal

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Maðurinn vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar PayPal tilkynnti honum að andlát bryti gegn notendaskilmálum.
Maðurinn vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar PayPal tilkynnti honum að andlát bryti gegn notendaskilmálum. Vísir/Getty
Greiðslumiðlunin PayPal hefur beðist afsökunar á að tilkynna ekkli að kona hans hafi brotið gegn notendaskilmálum þjónustunnar með því að deyja.

PayPal notar tölvukerfi sem er hannað til að bera kennsl á vandamál við greiðslur eða þjónustu og senda sjálfkrafa tölvupósta með tilkynningum þess efnis.

Eftir að bresk kona að nafni Lindsay Durdle lést af veikindum í lok maí sendi ekkill hennar, Howard, afrit af dánarvottorðinu og skilríkjum hennar til PayPal í þeim tilgangi að láta loka reikningnum.

Skömmu síðar barst bréf frá fyrirtækinu sem var stílað á Lindsay. Þar sagði að hún skuldaði enn tæplega hálfa milljón íslenskra króna og hefði brotið gegn notendaskilmálum með því að deyja áður en hún greiddi skuldina að fullu.

Í bréfinu stóð bókstaflega: „You are in breach of condition 15.4(c) of your agreement with PayPal Credit as we have received notice that you are deceased.“

Howard hafði samband við fyrirtækið sem baðst afsökunar en gat ekki skýrt nákvæmlega hvað fór úrskeiðis. Hugsanlega hafi verið um mannleg mistök að ræða eða einhverskonar villu í hugbúnaði.

Hann segir að atvikið hafi ekki sett sig sérstaklega úr jafnvægi en svo væri ekki endilega um alla. Hann þekki mörg dæmi þess að ekkjur og ekklar fái áföll vegna tillitslausra bréfsendinga fyrirtækja og stofnana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×