Erlent

Þáði laun án vinnu í áratug eftir að skrifborðið hans var fært

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Recio segist hafa unnið að heiman, hann hafi þrælað alla daga. Samt gat hann engar skýringar gefið á því nákvæmlega hvað hann var að gera.
Recio segist hafa unnið að heiman, hann hafi þrælað alla daga. Samt gat hann engar skýringar gefið á því nákvæmlega hvað hann var að gera. Antena 3 TV

Spænskur ríkisstarfsmaður að nafni Carles Recio hefur orðið uppvís að því að þiggja laun í rúman áratug án þess að vinna eitt handtak.

Recio starfaði sem skjalavörður fyrir héraðsstjórn Valencia. Nýlega sátu kollegar hans að spjalli þegar einhver minntist á að Recio sæist aldrei á skrifstofunni yfir daginn.

Raunar hefði enginn orðið var við hann skilaði af sér neinu vinnuframlagi frá því að hann hóf störf fyrir meira en tíu árum.

Recio mætti samviskusamlega klukkan átta á hverjum morgni og stimplaði sig út klukkan fjögur á daginn eins og hann átti að gera. Eina vandamálið var að í millitíðinni var hann víðsfjarri vinnustaðnum.

Recio gaf margvíslegar en loðnar skýringar á fjarveru sinni þegar yfirmenn fóru loksins að veita máli hans athygli. Fullyrti Recio að hann hefði unnið að heiman síðustu ár. Sagðist hann þræla alla daga og sér félli aldrei verk úr hendi, þrátt fyrir að vera ekki endilega á skrifstofunni.

Samt gat Recio ekki skýrt nákvæmlega hvað hann hefði verið að gera öll þessi ár eða hverju sú „vinna“ átti að hafa skilað.

Þegar sérstök rannsóknarnefnd var skipuð til að fara í saumana á málinu var Recio inntur eftir frekar skýringum og sagðist hann þá aðeins hafa verið fjarverandi vegna þess að einhver fjarlægði skrifborðið hans sameiginlegri skrifstofu í flutningum fyrir nokkrum árum.

Ekki væri hægt að ætlast til að hann ynni skrifstofuvinnu án skrifborðs.

Rannsóknarnefndin gagnrýnir Recio harðlega í skýrslu sinni en segir héraðsstjórnina einnig bera vissa ábyrgð. Svo virðist sem skrifborð Recio hafi vissulega verið fjarlægt á sínum tíma án þess að honum hafi verið úthlutað nýrri vinnuaðstöðu.

Hann hafi hins vegar nýtt sér mistökin með því að láta engan vita og stimpla sig inn og út á kvöldin án þess að vinna handtak. Fyrir þetta þáði Recio rúmlega 580 þúsund íslenskra króna á mánuði í meira en tíu ár.

Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að svo svívirðileg framkoma ætti ekki að vera möguleg, það hafi verið vítavert áhuga- og eftirtektarleysi yfirmanna sem gerði Recio kleift að komast upp með allt saman.

Jorge Rodriguez, forseti héraðsstjórnarinnar í Valencia, sagði af sér í síðasta mánuði vegna ótengdra spillingarmála.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.