Innlent

„Hellirigning“ í kvöld

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Öllu má nú ofgera.
Öllu má nú ofgera. Vísir/getty
Það mun rigna á Íslendinga í dag, sama hvar þeir eru niðurkomnir á landinu. Rigningin verður bundin við Suður-og Vesturland fyrir hádegi en mun færa sig smám saman í átt til norðausturs. Það þýðir þó ekki að stytti upp á Suðurlandi eftir því sem líður á daginn, aldeilis ekki. Veðurstofan gerir nefnilega ráð fyrir „hellirigningu“ á sunnanverðu landinu í kvöld og eitthvað fram á nótt.

Að sama skapi mun ekki þorna norðvestanlands og á Austurlandi fyrr en á morgun. Áfram má búast við súld sunnanlands á morgun og ætla má að bæta muni í vind seint annað kvöld. Hitinn verður á bilinu 10 til 20 stig í dag og á morgun. Sem fyrr verður hlýjast á Austurlandi.

Ef marka má spákort Veðurstofunnar verður eitthvað svipað upp á teningnum á sunnudag. Það mun hins vegar bregða til norðanáttar á mánudag og henni mun fylgja rigning á Norðurlandi en bjartviðri sunnantil. Daginn eftir verður svo nokkurn veginn bjart alls staðar á landinu og hægviðri - „en aftur í sama farið á miðvikudag og fimmtudag, rigning sunnan- og vestanlands, sól á Austurlandi,“ segir veðurfræðingur.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Suðvestlæg eða breytileg átt, 3-10, og víða vætusamt snemma morguns, en víða þurrt eftir hádegi. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast á Austurlandi.

Á sunnudag:

Austlæg og síðar breytileg átt með vætu um mest allt land. Hiti 7 til 17 stig, svalast á N-verðum Vestfjörðum.

Á mánudag:

Norðan og norðvestan 3-10 og rigning á köflum, en yfirleitt þurrt SV-lands. Hiti 7 til 17 stig, hlýjast á S-landi.

Á þriðjudag:

Hæg breytileg átt með bjartviðri um mest allt land.. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á V-verðu landinu.

Á miðvikudag:

Hæg austlæg eða breytileg átt. Dálítil rigning syðst, en annars þurrt. Hiti víða 10 til 17 stig.

Á fimmtudag:

Hæg austlæg eða breytileg átt. Skýjað með köflum og stöku skúrir Hiti 10 til 17 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×